Hálíngresi (Agrostis capillaris)

Útbreiðsla

Algengt um allt land nema sjaldséð á miðju hálendinu og sömuleiðis í Ódáðahrauni, Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Það er einnig mikið ræktað í túnum. Vex á láglendi og nokkuð upp eftir hlíðum. Hæstu fundarstaðir hálíngresis eru í 750 m hæð í botni Glerárdals við Eyjafjörð og í 740 m í Hattveri á Landmannaafrétti og við Laufrandarhraun á Bárðdælaafrétti. Hálíngresi hefur verið útbreitt hér á landi frá því löngu fyrir landnám (Hörður Kristinsson 2010, 2019).

Almennt

Nytjar

Nytsöm beitar- og fóðurjurt, töluvert ræktuð í túnum.

Búsvæði

Það er gömul og rótgróin jurt í landinu, algeng hvarvetna um mólendi og lægri heiðar upp fyrir 500 m hæð. Það vex einkum í grasdældum, brekkum og kjarrlendi (Hörður Kristinsson 2010).

Lýsing

Fremur hávaxið gras (30–80 sm) með snörpum blöðum og fíngerðum, rauðbrúnum punti.

Blað

Stráin eru stinn, hárlaus en mjúk, blöðótt langt upp eftir. Blöðin flöt, 2–4 mm breið, snörp. Slíðurhimna efstu blaðanna örstutt, þverstífð, 0,5-1mm á lengd, þær efstu stundum lengri (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Punturinn fíngerður, rauðbrúnn, allstór, 8–16 sm langur, neðri puntgreinar fremur langar. Smáöxin einblóma, axagnirnar rauðbrúnar eða fjólubláleitar, 3–3,5 mm á lengd, ein- eða þrítauga, hvelfdar eða með snörpum kili. Blómagnir miklu styttri en axagnirnar, neðri blómögnin tvöfalt lengri en sú efri, týtulaus eða með stuttri baktýtu (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).

Afbrigði

Stöku sinnum finnast hvítingjar af hálíngresi með hvítleitum eða ljósgulgrænum punti.

Greining

Oft getur verið örðugt að greina hálíngresi frá öðrum língresistegundum, eins og skriðlíngresi og týtulíngresi. Hálíngresið hefur stærri og breiðari punt og er oft hávaxnara en eitt öruggasta einkennið er hin örstutta slíðurhimna stöngulblaðanna.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir. 2019. Flóra Íslands: blómplöntur og birkningar. Vaka-Helgafell, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2019

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Einkímblöðungar (Liliopsida)
Ætt (Family)
Grasætt (Poaceae)
Tegund (Species)
Hálíngresi (Agrostis capillaris)