Ætihvönn (Angelica archangelica)

Útbreiðsla

Hún finnst víða um land en vantar víða þar sem mikil beit er. Á láglendi verður hún oft einráð ef beit heldur ekki aftur af henni. Þetta sést vel í gömlum túnum í hinum yfirgefnu byggðum á Hornströndum, þar sem hún leggur undir sig túnin og myndar þéttar, 2 m háar breiður svo landið verður torvelt yfirferðar. Einnig kemur þessi eiginleiki hvannarinnar fram þar sem lúpína hefur eytt öllum gróðri en aukið frjósemi jarðvegsins. Ef hún kemst á slík svæði, leggur hún þau undir sig.

Almennt

Hún er mjög eftirsótt af sauðfé og þolir illa að vera bitin niður til grunna á hverju ári.

Nytjar

Sem lækningajurt þykir ætihvönn einkar góð fyrir fólk sem er að ná sér eftir erfið veikindi og hefur lélega matarlyst, erfiðar hægðir o.s.frv. Hún er notuð til að losa slím um öndunarfærum og eins notuð gegn asma og öðrum lungnakvillum barna. Hún þykir verk- og vindeyðandi, eyða spennu og lina krampa. Vegna eiginleika ætihvannar sem lækningajurtar, voru hvannagarðar algengir við bæi bæði hér á landi og í nágrannalöndunum (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Virk efni í plöntunni eru m.a. ilmolíur sem innihalda t.a.m. pellandrín og pínín. Olíur fræjanna innihalda að auki metýlasetýlsýrur og hýdroxýmýristínsýrur. Öll jurtin inniheldur angelínkvoðunga, angelínsýrur, kúmarínefni o.fl. (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Skaðsemi

Ófrískum konum er ráðlagt að nota jurtina ekki, sérstaklega ekki á fyrstu stigum meðgöngu þar sem hún hefur tíðalosandi áhrif (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Hún er mjög þurftarmikil og sækir í áburðarríkt land. Hún finnst víða um land þar sem vatn er nægilegt. Vex gjarna við læki og lindir, í gróðurmiklum gilhvömmum og lautum, vatnsbökkum, hólmum, í sjávarhömrum og víðar í klettum, einkum varplöndum (Hörður Kristinsson 1998). Ætihvönnin er gömul lækningajurt sem menn héldu gjarnan í rækt heima við bæi.

Lýsing

Mjög stórvaxin planta (50–180 sm) með stóra, hvíta, samsetta blómsveipi og stór margsamsett blöð. Blómgast í júlí–ágúst.

Blað

Blöðin margsamsett, tví- til þrífjöðruð. Smáblöðin gróftennt, hárlaus. Blaðslíðrin mjög breið og útblásin, lykja um allan sveipinn meðan hann er að þroskast. Stöngullinn mjög sterklegur, gáraður, með víðu miðholi. Stöngullinn er mjög sterklegur, gáraður, með víðu miðholi. (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin standa mörg saman í samsettum sveipum sem eru 10–20 sm í þvermál, gerðir af mörgum smásveipum sem hver um sig er 1,5–2,5 sm í þvermál. Blómin 5–6 mm, hvítleit. Krónublöðin grænhvít, tungulaga eða oddbaugótt. Fræflar fimm í hverju blómi. Ein fræva með tveim stílum. Reifablöð smáreifanna striklaga, stórreifar vantar eða falla snemma (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Aldinið klofnar í tvö deilialdin, hvort með fjórum rifjum öðrum megin (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Ætihvönnin þekkist best frá geithvönn á kúptari stórsveipum, stærri og grófari blöðum (Hörður Kristinsson 2010).

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir. 1998. Íslenskar lækningjurtir: söfnun þeirra, notkun og áhrif (2. útg.). Íslensk náttúra IV. Mál og menning, Reykjavík.

Hörður Kristinsson. 1998. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (2. útg., texti óbreyttur frá 1986). Íslensk náttúra II. Mál og menning, Reykjavík.

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Sveipjurtaætt (Apiaceae)
Tegund (Species)
Ætihvönn (Angelica archangelica)