Fjalldrapi (Betula nana)

Útbreiðsla

Algengur, einkum um norðanvert landið en síst austan til á Suðurlandi. Hann vex mest frá láglendi upp í 700 m hæð, hæst fundinn í 850 m hæð í botni Bleiksmýrardals þar sem hann nær lengst inn í hálendið, í 750 m í Böggvisstaðafjalli við Dalvík, og í 740 og 730 m í Svörturústum og Vesturbugum á Hofsafrétti.

Almennt

Frjótími: Blómgun getur hafist um miðjan maí en oftast fara frjókorn að dreifast í síðustu viku maí og nær frjódreifing hámarki öðru hvoru megin við mánaðamótin maí / júní. Vorveðrátta hefur mikil áhrif á það hvenær frjótíminn hefst, því hlýrri apríl þeim mun fyrr blómgast birkið. Frjótíminn stendur yfir í 2 – 3 vikur, háð veðri, ef kalt er og vætutíð getur tognað úr þeim tíma sem birkifrjó eru í lofti.

Víxlbinding: Víxlbinding er algeng meðal ættkvísla ættbálksins Fagales, t.d. elri, hesli, agnbeyki, beyki, eik og kastanía. Einnig er víxlbinding algeng við græn epli (fersk).

Skaðsemi

Ofnæmisviðbrögð: Birkifrjókorn geta valdið sterkum ofnæmisviðbrögðum.

Búsvæði

Vex helst í móum og hálfdeigum mýrum. Á láglendi vex fjalldrapinn í fremur deigum hrísmóum eða þýfðum mýrum, og mikið einnig í bland við lyng og víði í mólendi. Hann er stundum ríkjandi á stórum svæðum þar sem áður hafa verið birkiskógar. Á hálendinu vex hann einna helst í fremur deigum lyngmóum.

Lýsing

Lágvaxinn runni (20–60 sm) með brúnleitum berki og nær kringlóttum, smáum blöðum. Blómgast í maí.

Blað

Runni með trjákenndar greinar og brúnleitan börk. Blöðin eru nær kringlótt, 5-12 mm í þvermál, dökkgræn ofan en ljósari að neðan, reglulega tennt, hárlaus, stuttstilkuð, fjaðurstrengjótt. Ársprotar hans eru stutthærðir en blöðin hárlaus. 

Blóm

Blómin einkynja í stuttum öxum sem nefnast reklar. Bæði karl- og kvenreklar eru á sömu plöntunni. Kvenreklarnir alsettir þrísepóttum rekilhlífum og standa þrjú blóm saman innan við hverja. Kvenblómin með eina frævu og tvo rauða stíla. Karlblómin með tvo klofna fræfla með gulum frjóhirslum.

Aldin

Aldinið er örsmá hneta með vængjum sem hvor um sig er mjórri en hnetan.

Afbrigði

Myndar stundum kynblendinga við birki sem hafa odd á blöðunum líkt og birki en blöðin eru minni en á birkinu og runninn er oftast meir eða minna jarðlægur en rís þó verulega hærra en fjalldrapinn. Kynblendingurinn er á íslensku nefndur skógviðarbróðir.

Greining

Það má greina fjalldrapa frá birki á því að hann er með mun minni og kringlóttari blöð (Hörður Kristinsson 2010).

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Bjarkarætt (Betulaceae)
Tegund (Species)
Fjalldrapi (Betula nana)