Bláberjalyng (Vaccinium uliginosum)

Útbreiðsla

Mjög algengt um allt land frá láglendi upp í 800 m hæð (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Jurtin í heild sinni var áður talin kælandi og barkandi. Þessi tegund var notuð gegn lífsýki, köldu og skyrbjúgi en eins þótti duft af rótinni gott til að strá í holdfúa sár. Eins var áður fyrr, lögur af berjunum látinn súrna og svo notaður til að barka skinn ásamt álúni. Til litunar má nota nýsoðin berin til að gefa lifrauðan lit en gulan lit má fá úr blöðunum (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Mjög algengt er að nýta berin bæði fersk, í saft eða sultu (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Búsvæði

Lyngmóar, bollar og hlíðar, stundum á mýraþúfum (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Lágvaxið lyng (8–15 sm) með sívölum greinum, heilrendum blöðum og drúpandi, bleikleitum blómum. Þroskar blá ber. Blómgast í maí–júní.

Blað

Greinarnar sívalar, brúnar, með stakstæðum öfugegglaga blöðum. Blöðin oftast ávöl fyrir endann eða lítið eitt odddregin, 10–18 mm á lengd og 6–12 mm á breidd, heilrend með lítið eitt niðurorpnum röndum, netstrengjótt (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru fimmdeild. Krónan krukku- eða bjöllulaga, með grunnum skerðingum, hvít, bleik eða rauð, oft nokkuð flekkótt, um 4 mm breið og 5 mm á lengd. Bikarinn grunnur, grænn eða bláleitur með rauðleitum, ávölum, aðfelldum flipum. Fræflarnir tíu, frjóhirslur með tveim þráðmjóum, uppsveigðum hornum. Ein fræva með einum stíl (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið blátt, döggvað, 9–12 mm í þvermál (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist aðalbláberjalyngi en bláberjalyngið þekkist frá því á sívölum, brúnum greinum og ótenntum, snubbóttum blöðum. Líkist einnig ljósalyngi.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Lyngætt (Ericaceae)
Tegund (Species)
Bláberjalyng (Vaccinium uliginosum)