Ljósalyng (Andromeda polifolia)

Útbreiðsla

Ljósalyng er mjög sjaldgæf planta, aðeins fundin á nokkrum stöðum í Brúnavík við Borgarfjörð eystri, á einum stað í Borgarfirði og utarlega á Fljótsdalshéraði. Það er gömul jurt á Íslandi, en fannst þó ekki fyrr en árið 1985. Það var Páll Jónsson frá Hvannstóði sem fyrstur fann það í Brúnavík í Borgarfirði eystra.

Búsvæði

Vex í súrum mýrum með svarðmosaþúfum (Sphagnum), svipuðu landi og mýraberjalyng.

Lýsing

Sígræn planta með þykk, mjó blöð sem eru ljósgrá á neðra borði og klukkulaga bleik eða hvít blóm.

Blað

Blöðin sígræn, þykk og skinnkennd, mjólensulaga eða nær striklaga, 10-15 mm löng og 2-3 mm breið. Með niðurorpnum röndum, að mestu hárlaus, græn að ofan en hvítloðin að neðan með sterku miðrifi (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin klukkulaga, legglöng, mörg saman á stöngulendum, standa nokkur saman á enda grannra, uppréttra sprota, á 5-12 mm löngum bleikum leggjum. Krónan er samblaða, í fyrstu bleik en síðar hvít, krukkulaga, fimmtennt. Bikarblöðin eru stutt, bleikrauð. Fræflar eru 10, með langhyrndar frjóhirslur. Ein fræva.  (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Upprétt, kringlótt hýðisaldin (Lid og Lid 2005).

Válistaflokkun

VU (tegund í nokkurri hættu)

ÍslandHeimsválisti
VU LC

Forsendur flokkunar

Ljósalyng flokkast sem tegund í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði tegundarinnar er takmarkað, u.þ.b. 30 hektarar.

Viðmið IUCN: D2

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.
D2. Restricted area of occupancy or number of locations with a plausible future threat that could drive the taxon to CR or EX in a very short time.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Ljósalyng er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Válisti 1996: Ljósalyng er á válista í hættuflokki LR (í nokkurri hættu).

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Lyngætt (Ericaceae)
Tegund (Species)
Ljósalyng (Andromeda polifolia)