Mýraberjalyng (Oxycoccus microcarpus)

Útbreiðsla

Fremur óvíða, algengast á Miðnorðurlandi og Fljótsdalshéraði (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Það vex í súrum jarðvegi á mýraþúfum, oftast innan um hvítmosa (Sphagnum) (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Lýsing

Jarðlæg jurt með um 10–20 sm langa sprota, bleik drúpandi blóm og rauð ber. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Blaðsprotar jarðlægir, með stakstæðum, gisstæðum, mjóhjartalaga eða langegglaga, stuttstilkuðum blöðum. Blöðin sígræn með niðurorpnum röndum, 3–4 mm á lengd og 1,5–2 mm á breidd, dökkgræn eða rauðleit á efra borði en ljósgræn neðan, með áberandi miðrifi (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin 6–7 mm í þvermál, fjórdeild, drúpandi, hvert á 1–1,5 sm löngum rauðum legg, með tveim örsmáum forblöðum mishátt á miðjum legg. Krónan djúpklofin, fagurrauð, krónuflipar 4–5 mm á lengd, djúpt aftursveigðir. Bikarinn grunnskertur, dökkrauður. Fræflar átta í knippi, standa út úr blóminu, knappleggirnir hærðir, dökkbrúnir, frjóhirslur aflangar, ljósbrúnar. Ein fræva með löngum, rauðum stíl (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið rautt ber, 5–7 mm í þvermál og stendur stíllinn upp úr því (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Óblómgaðir sprotar geta minnt á gisblöðótt krækilyng, mýraberjalyng hefur hlutfallslega breiðari blöð og aldrei ná blaðrendurnar saman á neðra borði eins og á krækilyngi. Auðþekkt í blóma eða með berjum.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Það vex í súrum jarðvegi á mýraþúfum, oftast innan um hvítmosa (Sphagnum) (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Mýraberjalyng (Oxycoccus microcarpus)