Mýraberjalyng (Oxycoccus microcarpus)

Útbreiðsla

Fremur óvíða, algengast á Miðnorðurlandi og Fljótsdalshéraði (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Búsvæði

Það vex í súrum jarðvegi á mýraþúfum, oftast innan um hvítmosa (Sphagnum) (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Lýsing

Jarðlæg jurt með um 10–20 sm langa sprota, bleik drúpandi blóm og rauð ber. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Blaðsprotar jarðlægir, með stakstæðum, gisstæðum, mjóhjartalaga eða langegglaga, stuttstilkuðum blöðum. Blöðin sígræn með niðurorpnum röndum, 3–4 mm á lengd og 1,5–2 mm á breidd, dökkgræn eða rauðleit á efra borði en ljósgræn neðan, með áberandi miðrifi (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin 6–7 mm í þvermál, fjórdeild, drúpandi, hvert á 1–1,5 sm löngum rauðum legg, með tveim örsmáum forblöðum mishátt á miðjum legg. Krónan djúpklofin, fagurrauð, krónuflipar 4–5 mm á lengd, djúpt aftursveigðir. Bikarinn grunnskertur, dökkrauður. Fræflar átta í knippi, standa út úr blóminu, knappleggirnir hærðir, dökkbrúnir, frjóhirslur aflangar, ljósbrúnar. Ein fræva með löngum, rauðum stíl (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið rautt ber, 5–7 mm í þvermál og stendur stíllinn upp úr því (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Óblómgaðir sprotar geta minnt á gisblöðótt krækilyng, mýraberjalyng hefur hlutfallslega breiðari blöð og aldrei ná blaðrendurnar saman á neðra borði eins og á krækilyngi. Auðþekkt í blóma eða með berjum.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Lyngætt (Ericaceae)
Tegund (Species)
Mýraberjalyng (Oxycoccus microcarpus)