Giljaflækja (Vicia sepium)

Útbreiðsla

Fremur sjaldgæf jurt sem vex nær eingöngu á Suðurlandi, einkum undir Eyjafjöllum og í Mýrdal (Hörður Kristinsson 1998).

Vistgerðir

Graslendi og blómlendi.

Lýsing

Meðalhá jurt (20–40 sm) með fjöðruðum blöðum, vafþráðum og fjólubláum blómklösum.

Blað

Blöðin fjöðruð, með fimm til átta blaðpörum, smáblöðin mjóegglaga, snubbótt í endann en þó broddydd, gis- og stutthærð, endasmáblöðin ummynduð í vafþræði sem vefjast utan um greinar nágrannajurta. Stönglarnir gáróttir, grannir (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru einsamhverf, í einhliða, leggstuttum, aðeins þrí- til fimmblóma klösum. Þau eru svipuð að gerð og hjá umfeðmingi og álíka stór. Bikarinn gishærður, klukkulaga með fimm hvassyddum tönnum (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist umfeðmingi en giljaflækja þekkist á legglausum eða stuttleggjuðum og miklu blómfærri klösum með ljósari blómum, smáblöðin snubbótt í endann með hárfínum broddi. Giljaflækja greinist frá baunagrasi á smærri og blárri blóm, fleiri og mjórri smáblöð.

Válistaflokkun

VU (tegund í nokkurri hættu)

ÍslandHeimsválisti
VU NE

Forsendur flokkunar

Giljaflækja flokkast sem tegund í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði tegundarinnar er takmarkað, u.þ.b. 10 km2.

Viðmið IUCN: D2

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.D2. Restricted area of occupancy or number of locations with a plausible future threat that could drive the taxon to CR or EX in a very short time.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Giljaflækja er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Válisti 1996: Giljaflækja er á válista í hættuflokki LR (í nokkurri hættu).

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Graslendi og blómlendi.

Biota

Tegund (Species)
Giljaflækja (Vicia sepium)