Gullvöndur (Gentianella aurea)

Útbreiðsla

Algengur um allt land en síður inni á hálendinu. Algengt er að finna hann frá láglendi upp í 600 m hæð. Hæst skráður í 750 m hæð í Hellisfjalli á Landmannaafrétti.

Búsvæði

Vex á þurrum grasbölum, grónum melbrekkum, gilkinnungum og snöggu mólendi.

Lýsing

Ein- til tvíær, fremur lágvaxin planta (8–12 sm) með allmörgum fjólubláum blómum saman í hnapp. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Stönglarnir oft mikið greindir neðan til, skarpstrendir eða vængjaðir, hárlausir. Laufblöðin heilrend, egglaga, odddregin í endann en niðurbreið (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin eru oftast allmörg saman í hnapp, rétt ofan við fjögur allstór laufblöð. Krónan tiltölulega lítil, 4–5 mm í þvermál og 7–8 mm á lengd, fölfjólublá í efri enda, oft grænhvít neðan til. Krónuflipar oftast fjórir (eða fimm), odddregnir, engir ginleppar að innanverðu. Bikarfliparnir lítið styttri, mjóir (1 mm), misstórir. Fjórir fræflar, ein fræva (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Líkist maríuvendlingi en gullvöndurinn hefur ljósari, fjólubláleitari blóm með styttri krónpípu og standa þau gjarnan mörg saman í þyrpingu. Getur einnig minnt á grænvönd.

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Maríuvandarætt (Gentianaceae)
Tegund (Species)
Gullvöndur (Gentianella aurea)