Lyngbúi (Ajuga pyramidalis)

Útbreiðsla

Mjög sjaldgæf jurt sem aðeins finnst norðarlega á Austfjörðum á svæðinu frá Unaósi að Norðfirði, einkum í þeim hlíðum sem vita mót suðri. Hæsti fundarstaður lyngbúans er í 350–400 m undir Nípukolli í Norðfirði (Hjörleifur Guttormsson 2008). Lyngbúinn finnst allvíða á svæðinu frá Njarðvík eystra suður í Norðfjörð. Líklega er hann einna algengastur í Njarðvík þar sem hann finnst hér og þar í neðanverðum hlíðum frá Geldingafelli í Dyrfjalladal út í Skjaldardal (Hörður Kristinsson 2019). Í Borgarfirði hefur hann fundist á einum fimm stöðum en í Loðmundarfirði er lyngbúinn aðeins fundinn yst við fjörðinn að norðan á Nesi, bæði í Sauðhöfðahlíðum fyrir ofan Nes (Helgi Valtýsson 1945), í Nesárgili og utan í Neshálsi (Ingólfur Davíðsson 1940). Einn fundarstaður er þekktur í Brúnavík og annar í Kjólsvík (Hjörleifur Guttormsson 2008). Í Mjóafirði hefur hann aðeins fundist ofan við Brekku, í Seyðisfirði á einum stað uppi í hlíðum skammt utan við Hádegisá, en það er fyrsti fundarstaður hans hér á landi frá árinu 1904. Að lokum er hann á nokkrum stöðum í Norðfirði í hlíðinni ofan og utan við Neskaupstað. 

Búsvæði

Vex einkum í dældum, gjótum eða lyngbollum í bláberjalyngshlíðum eða lágvöxnu kjarri en kemur einnig fyrir í valllendi og graslágum, eða snjódældum. Vex stundum undir klettum. (Hörður Kristinsson, 2019)

Lýsing

Lágvaxin jurt (10–15 sm) með bláum blómum og fjólubláleitum, gishærðum blöðum. Blómgast í júní–júlí (Hörður Kristinsson 2010).

Blað

Stöngull kafloðinn, laufblöðin 10–15 sm á lengd, hærð, nær heilrennd og mjókka jafnt niður að stilknum. Stoðblöð blómanna eru miklu lengri (2–3 sm) en blómin, tungulaga, loðin, mjög þétt og krossgagnstæð svo sprotinn virðist ferstrendur (Hörður Kristinsson 1998). Ungir sprotar hafa ferstrenda pýramídalögun áður en þeir teygja úr sér.

Blóm

Blómin eru blá og varaskipt. Krónupípan 10–15 mm löng, neðri vörin fjórflipuð, efri vörin örstutt, blómginið loðið. Fræflar fjórir, frævan með einum stíl (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Smáhnetur með fitutotu, fræjunum er dreift af maurum þar sem þeir eru til staðar (Lid og Lid 2005).

Greining

Auðþekktur á hinum þéttstæðu blöðum blómskipunarinnar sem mynda ferstrendan topp (Hörður Kristinsson 1998).

Válistaflokkun

VU (tegund í nokkurri hættu)

ÍslandHeimsválisti
VU NE

Forsendur flokkunar

Lyngbúi flokkast sem tegund í nokkurri hættu þar sem stofninn er talinn lítill og telji færri en 1000 fullþroska einstaklinga. 

Viðmið IUCN: D1

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.
D1. Fjöldi fullþroska einstaklinga.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Lyngbúi er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Válisti 1996: Lyngbúi er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Verndun

Lyngbúi er friðaður samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Helgi Valtýsson. 1945. Fáein orð um "Lyngbúa". Náttúrufræðingurinn; 15 (1): 58-59.

Hjörleifur Guttormsson. 2008. Árbók Ferðafélags Íslands 2008. Ferðafélag Íslands Árbók, Reykjavík.

Hörður Kristinsson. 1998. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (2. útg., texti óbreyttur frá 1986). Íslensk náttúra II. Mál og menning, Reykjavík.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir. 2019. Flóra Íslands: blómplöntur og birkningar. Vaka-Helgafell, Reykjavík.

Ingólfur Davíðsson. 1940. Ný íslenzk jurtategund. Náttúrufræðingurinn; 10 (3-4): 161-162.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2019, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Varablómaætt (Lamiaceae)
Tegund (Species)
Lyngbúi (Ajuga pyramidalis)