Haustbrúða (Callitriche hermaphroditica)

Útbreiðsla

Hún er fremur sjaldgæf á Íslandi, algengust í vatnakerfi Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, bæði í ánni og einnig í Mývatni og Grænavatni. Auk þess sést hún stöku sinnum í smátjörnum á hálendinu, og fáeinum stærri vötnum.Í Þjórsárverum fannst haustbrúða einungis í fáum tjörnum, enda þótt tjarnir skipti þúsundum á svæðinu.

Búsvæði

Vex ætíð á kafi í vatni í tjörnum, stöðuvötnum eða ám. 

Lýsing

Fíngerð jurt sem vex ofast á kafi í grunnu vatni, blómstrar lítt áberandi blómum.

Blað

Stöngull þéttblöðóttur. Blöðin eru krossgagnstæð, dökkgræn, breiðust neðst við fótinn, 1-2 mm breið og 8-14 mm löng, buguð í endann. Mynda fjórar raðir út frá stönglinum. Engin flothvirfing (Hörður Kristinsson, 2010).

Blóm

Blómin blómhlífarlaus; karlblómin með einum fræfli, kvenblómið með einni frævu. Blóm og aldin eitt í hverri blaðöxl.

Aldin

Aldin oftast stór og hnöttótt, 2–3 mm í þvermál og með 0,1–0,5 mm breiða vængbrún. Áður en aldin eru fullþroska eru þau greinilega ljósari en blöðin. Aldinleggir útstæðir eða niðursveigðir, falla fljótt af (Lid og Lid 2005).

Greining

Er fremur auðþekkt frá hinum vatnsbrúðunum. Þekkist best á þéttsettum, krossgagnstæðum, niðurbreiddum blöðum sem mynda fjórar raðir út frá stönglinum (Hörður Kristinsson 2010).

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Græðisúruætt (Plantaginaceae)
Tegund (Species)
Haustbrúða (Callitriche hermaphroditica)