Lækjabrúða (Callitriche brutia)

Útbreiðsla

Er fremur sjaldgæft afbrigði tegundarinnar á Íslandi. Hún hefur einkum fundist á Suðvesturlandi, en einnig á einum stað við Ísafjarðardjúp.

Búsvæði

Lækjabrúðan vex jafnan á kafi í vatni, lækjum eða tjörnum.

Lýsing

Fíngerð jurt sem vex ofast á kafi í grunnu vatni, blómstrar lítt áberandi blómum.

Blað

Smávaxin. Neðri blöðin gagnstæð, striklaga með tvær, klólaga tennur í endann. Efri blöðin mjósporbaugótt með þremur taugum (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin græn, einkynja, blómhlífarlaus. Karlblóm hafa einn frjóhnapp, kvenblóm með eina frævu (Lid og Lid 2005).

Aldin

Aldin þykkt og ljóst, á löngum stilk, nær hnöttótt og 1,1–1,2 mm í þvermál. Vængbrún 0,1 mm breið eða breiðari, úr stuttum, þykkum frumum (Lid og Lid 2005).

Greining

Hún líkist einkum vorbrúðu, en þekkist frá henni og öllum öðrum vatnsbrúðum á stilkuðum blómum og aldinum.

Variation

Til eru tvö afbrigði á Íslandi: Callitriche brutia var. brutia (Lækjabrúða) og Callitriche brutia var. hamulata (Síkjabrúða).

Válistaflokkun

DD (vantar gögn)

ÍslandHeimsválisti
DD LC

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Lækjabrúða er á válista í hættuflokki DD (upplýsingar ófullnægjandi).

Válisti 1996: Lækjabrúða er á válista í hættuflokki DD (upplýsingar ófullnægjandi).

Verndun

Lækjabrúða er friðuð samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Græðisúruætt (Plantaginaceae)
Tegund (Species)
Lækjabrúða (Callitriche brutia)