Ljónslappi (Alchemilla alpina)

Útbreiðsla

Algengur um mest allt landið, þó strjáll og vantar á köflum á miðhálendinu. Algeng jurt um allt land frá láglendi upp í um 700–800 m hæð. Hæstu fundarstaðir ljónslappa eru 930 m í Reykárbotnum við Bónda í Eyjafirði, og í 900 m í fjallshlíðinni ofan Tjarnar í Svarfaðardal (Hörður Kristinsson 2019).

Búsvæði

Kjörsvæði ljónslappa er í bollum, skriðum, hlíðaskorningum og undir rofabörðum (Hörður Kristinsson 1998). Hann vex oft í þurru mólendi en myndar líka stundum þéttar, ávalar þúfur í fokjarðvegi (Hörður Kristinsson 2019).

Lýsing

Lágvaxin jurt (5–15 sm) með gulgrænum blómum. Blöð handskipt með tenntum endum og þéttri silfurhæringu á neðra borði. Blómgast í júní.

Blað

Blöðin eru stilklöng (5–10 sm), handskipt með fimm til sjö smáblöðum. Smáblöðin 1,5–2 sm á lengd, tennt í endann, þétt silfurhærð á neðra borði. Blöðin eru dökkgræn og lítt eða ekki hærð á efra borði. Jarðstöngullinn gildvaxinn með himnukenndum, brúnum lágblöðum (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin eru allmörg saman í blómhnoðum sem standa í blaðöxlum; þau eru fjórdeild, 2,5–3,5 mm í þvermál. Krónublöð vantar. Bikarblöð gulgræn, fjögur í kross með hárskúf í oddinn. Örmjóir og stuttir utanbikarflipar í blaðvikunum. Fræflar fjórir, ein fræva með einum hliðstæðum stíl (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Aldinið er hneta (Lid og Lid 2005).

Greining

Blómin líkjast blómum maríustakks og maríuvattar en ljónslappi er auðþekktur á blöðunum sem eru skipt með skerðingum alla leið niður að blaðstilk (Hörður Kristinsson 1998).

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 1998. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (2. útg., texti óbreyttur frá 1986). Íslensk náttúra II. Mál og menning, Reykjavík.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir. 2019. Flóra Íslands: blómplöntur og birkningar. Vaka-Helgafell, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2019

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Rósaætt (Rosaceae)
Tegund (Species)
Ljónslappi (Alchemilla alpina)