Skeljamura (Argentina egedii)

Búsvæði

Vex eingöngu á sjávarfitjum, þ.e. á grónu landi sem sjór flæðir yfir í háflóði (Hörður Kristinsson 2010).

Lýsing

Mjög smávaxin jurt (2–5 sm) með fjöðruð, tennt blöð og gul, fimmdeild blóm (Lid og Lid 2005).

Blað

Laufblöðin eru stakfjöðruð, með 3-6 pörum smáblaða sem eru nær kringlótt eða öfugegglaga, með þrjár til fimm snubbóttar tennur á hvorri hlið, silfurhærð á neðra borði en oftast óhærð og fagurgræn að ofan (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómleggir stuttir og hárlausir. Bikarblöð snubbótt (Lid og Lid 2005). Blóm eru fimmdeild, 1,5-2 sm í þvermál. Krónublöðin eru gul, bikarinn grænn eða móleitur, tvöfaldur. Fimm mjóir heilrenndir utanbikarflipar eru á milli bikarblaðanna, oft heldur styttri en bikarblöðin. Blómin hafa marga fræfla og margar frævur (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Skeljamura ber mörg aldin á kúptum blómbotni.

Greining

Líkist mjög tágamuru en skeljamura er smávaxnari, ber færri pör smáblaða á fjöðruðum laufblöðunum, hefur fagurgrænni og minna loðin blöð og styttri renglur, og vex eingöngu á sjávarflæðum.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Rósaætt (Rosaceae)
Tegund (Species)
Skeljamura (Argentina egedii)