Þyrnirós (Rosa pimpinellifolia)

Útbreiðsla

Sjaldgæf á Íslandi, hún hefur fundist á nokkrum stöðum frá Austfjörðum, suður um og norður til Vestfjarða (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Gras- og blómlendi, jafnvel í grýttum fjallshlíðum (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Lýsing

Fremur lágvaxinn rósarunni (30–70 sm) með þéttum þyrnum og hvítum rósum. Blómgast í júlí.

Blað

Blöðin fjöðruð, oftast með þrem til fjórum blaðpörum og endablaði. Smáblöðin sporbaugótt, reglulega tennt, 1–2 sm á lengd. Stöngullinn þétt settur afar misstórum þyrnum, frá 1 mm upp í 8 mm á lengd. Smáþyrnar þéttir, gisstæðari grófir þyrnar á milli (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru 3–5 sm í þvermál. Krónublöðin hvít, 1,5–2 sm löng. Bikarfliparnir mjóir, odddregnir, tenntir, 1–1,5 sm á lengd. Margir gulir fræflar. Nokkrar frævur í miðju blóminu, loðnar (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið er svokallað hjúpaldin, hnöttótt staup, blárautt að lit, 7–8 mm í þvermál, holt innan með smáum hnetum í botninum (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist helst á glitrós en þyrnirós þekkist á hvítum blómum, minni axlablöðum og þéttum, misstórum þyrnum.

Válistaflokkun

VU (tegund í nokkurri hættu)

ÍslandHeimsválisti
VU NE

Forsendur flokkunar

Þyrnirós flokkast sem tegund í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði tegundarinnar er takmarkað, u.þ.b. 7 km2.

Viðmið IUCN: D2

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.D2. Restricted area of occupancy or number of locations with a plausible future threat that could drive the taxon to CR or EX in a very short time.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Þyrnirós er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Válisti 1996: Þyrnirós er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Verndun

Þyrnirós er friðuð samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Gras- og blómlendi, jafnvel í grýttum fjallshlíðum (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Þyrnirós (Rosa pimpinellifolia)