Gulmaðra (Galium verum)

Útbreiðsla

Algeng um allt land, síst þó á miðhálendinu.

Almennt

Líklegt er að bæjarnöfnin Möðruvellir og Möðrudalur séu dregin af nafni þessarar plöntu (Hörður Kristinsson). Áður fyrr var gulmaðra notuð gegn bæði sinadrætti og flogaveiki. Hún hefur verið nefnd ólúagras þar sem Eggert Ólafsson segir hana í kvæði sínu létta lúa. Að auki hefur rótin verið notuð til litunar (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Gulmaðra þykir einkar góð við ýmsum húðsjúkdómum. Te af gulmöðru þykir gott til að hreinsa blóðið eftir notkun sterkra lyfja, áfengis eða eftir mikla kaffineyslu (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Gulmaðra inniheldur m.a. kísilsýru, barksýrur, jurtasýrur og C-vítamín (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Vex oft á sléttum harðbalagrundum, en einnig víða í mólendi, hlíðum og kjarri.

Lýsing

Meðalhá planta (12–30 sm) með mjóum blöðum í kransi og mörgum litlum, fjórdeildum, gulum blómum. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Stönglar strendir, ofurlítið hærðir. Blöðin 6-10 saman í krönsum, striklaga, broddydd, 8–20 mm á lengd, gljáandi á efra borði, rendur niðurorpnar, neðra borð ljósgrænt, hært (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin standa mörg saman í greindum blómskipunum í efri blaðöxlunum, 3–4 mm í þvermál. Krónublöðin fjögur, gul á lit, krossstæð, oddmjó, samgróin neðst. Fræflar fjórir, ein fræva með klofinn stíl (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Hún hefur kransstæð blöð eins og aðrar möðrur og er eina íslenska maðran sem ber gul blóm. Óblómgaða má þekkja gulmöðruna frá krossmöðru og hvítmöðru á lögun laufblaða.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir. 1998. Íslenskar lækningjurtir: söfnun þeirra, notkun og áhrif (2. útg.). Íslensk náttúra IV. Mál og menning, Reykjavík.

Ágúst H. Bjarnason og Eggert Pétursson. 1994. Íslensk flóra með litmyndum. Forlagið, Reykjavík.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Möðruætt (Rubiaceae)
Tegund (Species)
Gulmaðra (Galium verum)