Skeggburkni (Asplenium septentrionale)

Útbreiðsla

Ein allra sjaldgæfasta jurt landsins. Aðeins er vitað um þrjár plöntur af þessari tegund, sem allar vaxa í einni og sömu klettaskorunni, í stökum blágrýtiskletti við Hléskóga í Höfðahverfi í um 90 m hæð yfir sjávarmáli. Vaxtarstaðurinn er mjög þurr, og er það í samræmi við kjörlendi burknans sem er á þurrum, sólríkum stöðum. Valgarður Egilsson fann burknann þarna fyrstur um 1960. Lengi voru einungis tveir burknar fundnir, en þegar burknans var vitjað árið 2014 fannst þriðja plantan nærri hinum tveimur. Afar lítil breyting er sjáanleg á vaxtarstað burknans á þeim 50 árum sem liðin eru frá fundi hans, að því fráskildu að topparnir hafa lítið eitt stækkað. Ekkert er vitað um hversu lengi burkninn hefur vaxið þarna, né heldur hvernig hann muni hafa borist til landsins. Gömul heimild er til um að skeggburkni hafi áður fundist á Íslandi og segir þar að Baring-Gould hafi safnað skeggburkna í Laugardal og hafi Babington séð eintakið.

Búsvæði

Þurrar klettaskorur.

Lýsing

Lágvaxinn burkni (10–15 sm), blöðin gaffalskipt með striklaga flipum.

Blað

Skeggburkninn hefur stuttan, uppsveigðan jarðstöngul með dökkbrúnum hreistrum. Upp frá honum rís þétt þyrping af sígrænum blöðum á löngum grænum stilk. Blöð gaffalskipt með fáum, striklaga flipum. Fliparnir með nokkrum tönnum á endanum. Stilkurinn er ofurlítið grópaður, að mestu grænn og hárlaus, neðst með dökkbrúnu slíðri og örstuttum strjálum kirtilhárum. (Lid og Lid 2005, Hörður Kristinsson). Blöðin með stilknum eru um 4-10 sm á lengd, óreglulega gaffalgreind, blöðkurnar sjálfar örlitlar, í mesta lagi 2-3 mm á breidd, mjólensulaga eða striklaga, grópaðar að endilöngu, broddyddar.

Blóm

Gróblettirnir renna saman og mynda samfelldan dökkbrúnan gróblett eftir endilöngu neðra borði blaðsins, sem getur náð 10-20 mm á lengd. Gróhulan er jafnlöng, lengi sýnileg til hliðar við gróblettinn (Lid og Lid 2005, Hörður Kristinsson).

Greining

Hann er auðþekktur frá öllum öðrum burknum, eini íslenski burkninn með striklaga gaffalgreind blöð (Hörður Kristinsson, 2010).

Válistaflokkun

CR (tegund í bráðri hættu)

ÍslandHeimsválisti
CR NE

Forsendur flokkunar

Skeggburkni hefur aðeins fundist á einum stað á norðanverðu landinu en þar fannst hann um 1960. Lengi uxu tvær plöntur í lítilli skoru í kletti en þegar burknans var vitjað árið 2014 fannst þriðja plantan nærri hinum tveimur.

Viðmið IUCN: D

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu
D. Fjöldi fullþroska einstaklinga færri en 50
Fjöldi fullþorska einstaklinga 3.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Skeggburkni er á válista í hættuflokki CR (í bráðri hættu).

Válisti 1996: Skeggburkni er á válista í hættuflokki CR (í bráðri hættu).

Verndun

Skeggburkni er friðaður samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Burknar (Polypodiopsida)
Ætt (Family)
Klettaburknaætt (Aspleniaceae)
Tegund (Species)
Skeggburkni (Asplenium septentrionale)