Hlíðaburkni (Cryptogramma crispa)

Útbreiðsla

Mjög sjaldgæfur á Íslandi, aðeins fundinn á tveim stöðum á Vestfjörðum (í hlíðinni ofan við síldarverksmiðjuna við Hesteyrarfjörð, og fyrir utan Grímshamarskleif á Snæfjallaströnd).. Hann fannst fyrst á Hesteyri árið 1932, og síðan á Snæfjallaströnd árið 1945. Á báðum stöðunum er töluvert mikið af burknanum og á Snæfjallaströndinni er hann á nokkuð stóru svæði, um 1 km á lengd í grjóturð meðfram hlíðarrótunum og upp fyrir urðina neðst í hlíð fjallsins langleiðina út undir Möngufoss. Báðir fundarstaðirnir eru á láglendi neðan 200 m hæðar.

Búsvæði

Brattar og grýttar, snjóþungar hlíðar.

Lýsing

Lágvaxinn burkni (10–20 sm) með þrífjöðruð blöð og fjaðursepótta þriðju gráðu smábleðla.

Blað

Láréttur jarðstöngull. Blöðin ljósgræn, margskipt, þrífjöðruð, hárlaus, 3–7 sm á lengd, á löngum stilk og standa í þéttum þyrpingum. Blaðstilkurinn getur verið allt að tvöfalt lengri en blöðkurnar. Þær eru tvenns konar, tillífunarblöð utan með, en gróbær blöð í miðju, en báðar blaðgerðir eru jafn mikið samsettar. Smábleðlar þriðju gráðu eru flatir, egglaga og fjaðursepóttir á tillífunarblöðunum, en verða sívalir og aflangir á gróbæru blöðunum, þar sem hliðarrendurnar verpast niður yfir gróblettina. Hlíðarburkninn er hárlaus, en hefur örfá himnukennd hreistur neðst á blaðstilkunum.

Blóm

Gróbæru blöðin jafn mikið samsett og hin en bleðlarnir striklaga, verða nær sívalir, þar sem hliðarrendurnar verpast niður yfir gróblettina. Gróblettirnir eru í tveim röðum meðfram blaðröndinni báðum megin, í fyrstu aðskildir en renna síðar saman í samfellda rák. Gróhulu vantar.

Greining

Hlíðaburkninn er ólíkur öllum öðrum íslenskum burknum og því auðþekktur frá þeim á blaðlöguninni.

Válistaflokkun

VU (tegund í nokkurri hættu)

ÍslandHeimsválisti
VU NE

Forsendur flokkunar

Hlíðaburkni flokkast sem tegund í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði tegundarinnar er takmarkað, u.þ.b. 3 km2 auk þess sem einungis 3 fundarstaðir eru þekktir.

Viðmið IUCN: D2

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.
D2. Restricted area of occupancy or number of locations with a plausible future threat that could drive the taxon to CR or EX in a very short time.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Hlíðaburkni er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Válisti 1996: Hlíðaburkni er á válista í hættuflokki EN (í hættu).

Verndun

Hlíðaburkni er friðaður samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Burknar (Polypodiopsida)
Ætt (Family)
Vængburknaætt (Pteridaceae)
Tegund (Species)
Hlíðaburkni (Cryptogramma crispa)