Keilutungljurt (Botrychium minganense)

Útbreiðsla

Fannst fyrst á Íslandi árið 2001. Keilutungljurt er eftir því sem best er vitað í dag ein af fáum vestrænum tegundum á Íslandi, eins og gulstörin og eyrarrósin en er ekki þekkt frá öðrum löndum Evrópu. Sá möguleiki er þó enn fyrir hendi að mönnum hafi yfirsést þessi tegund þar eins og hér á landi (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Sendinn jarðvegur eða frjóar grasbrekkur.

Lýsing

Lágvaxin jurt með einu, fjaðurskiptu blaði og klasa af gróhirslum.

Blað

Örstuttur, uppréttur jarðstöngull með einu blaði sem greinist í tvennt ofan til, í gróbæran hluta með klasa af gróhirslum og fjaðraða blöðku með smáblöðum. Smáblöðin keilulaga. Blaðpörin öll í einum fleti (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Hún líkist nokkuð venjulegri tungljurt en smáblöðin eru mjórri og fremur keilulaga en tungllaga og skarast því ekki eins mikið og á venjulegri tungljurt. Blaðpörin eru öll í einum fleti en ekki eins og á tungljurt þar sem neðsta blaðparið rís fram og snúa þau því hvort á móti öðru (Hörður Kristinsson 1998).

Válistaflokkun

DD (vantar gögn)

ÍslandHeimsválisti
DD NE

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Keilutungljurt er á válista í hættuflokki DD (upplýsingar ófullnægjandi).

Válisti 1996: Keilutungljurt er ekki á válista.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Sendinn jarðvegur eða frjóar grasbrekkur.

Biota

Tegund (Species)
Keilutungljurt (Botrychium minganense)