Mánajurt (Botrychium boreale)

Útbreiðsla

Sjaldgæf, er aðeins þekkt frá um 20 fundarstöðum. Venjulega finnst aðeins einn þéttur toppur eða fáar plöntur á hverjum stað. Fleiri fundarstaðir eru á Norðurlandi umhverfis Eyjafjörð, og á Vestfjörðum norðanverðum en annars staðar á landinu. Flestir fundarstaðir mánajurtar eru frá láglendi upp í um 400 m hæð. Hæst hefur það fundist í Arnarfellsbrekku við Hofsjökul í rúmlega 600 m hæð og í 550 m hæð við Barðsmel á Tunguselsheiði.

Búsvæði

Algengast er að mánajurtin vaxi í mismunandi þurru graslendi. Oft er hún í frjóu graslendi eða grasi grónum brekkum, ýmist í snöggu eða hávöxnu grasi, kemur einnig yfir í sendnu graslendi á sjávarbakka.

Lýsing

Lágvaxin jurt (6–15 sm) með einu, fjaðurskiptu blaði og klasa af gróhirslum.

Blað

Örstuttur, uppréttur jarðstöngull, 5-15 sm á hæð, með einu blaði sem ofan til greinist í tvo hluta: gróbæran hluta með klasa af gróhirslum og blaðkenndan tillífunarhluta með fjaðurskiptri blöðku. Tillífunarhluti blaðsins er festur rétt ofan við miðjan stilkinn eða ofar, hann er fjaðurskiptur, 3-7 sm á lengd, aflangur, egglaga, eða þríhyrndur, oftast með 3-7 blaðpörum. Smáblöðin eru tígullaga eða egglaga, djúpskert til hliðanna, oftast lítið lengri en breið, þau neðstu um 1–1,5 sm á lengd og breidd.

Blóm

Gróbæri blaðhlutinn ber fremur stuttan, greindan klasa af hnöttóttum gróhirslum, um 1 mm í þvermál, sem opnast með rifu þvert yfir kollinn.

Greining

Mánajurtin þekkist helst frá öðrum tungljurtum á formi tillífunarblaðsins. Hún líkist helst lensutungljurt en hún er með lengri og reglulega fjaðursepótt smáblöð á meðan mánajurt er með breiðari og styttri hliðarsmáblöð, með snubbóttum flipum. Það er ekki alltaf auðvelt að greina þessar tvær tegundir að. Mánajurt er auðþekkt frá venjulegri tungljurt á hlíðarsmáblöðunum, sem eru skert en ekki mánalaga. Staðsetning blöðkunnar ofan við miðju stilksins greinir Mánajurt frá dvergtungljurt.

Válistaflokkun

VU (tegund í nokkurri hættu)

ÍslandHeimsválisti
VU NE

Viðmið IUCN: D1

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.
D1. Number of mature individuals.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Mánajurt er ekki á válista en í hættuflokki NT (í nokkurri hættu).

Válisti 1996: Mánajurt er ekki á válista.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tungljurtir (Psilotopsida)
Ætt (Family)
Naðurtunguætt (Ophioglossaceae)
Tegund (Species)
Mánajurt (Botrychium boreale)