Blöðrujurt (Utricularia minor)

Útbreiðsla

Blöðrujurtin hefur verið á undanhaldi síðustu áratugi, bæði vegna þurrkunar lands og vegna þess að menn eru hættir að taka mó. Annars finnst hún dreift um landið (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Einkum vex hún í gömlum mógröfum og í kyrru vatni í mýrarpollum eða blautum flóum innan um stör og vatnssósa mosa (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Lýsing

Rótarlaus vatnajurt, um 10–20 sm löng, með veiðiblöðrur sem hún veiðir í smádýr. Blómgast venjulega í ágúst en blómgast oft ekki hérlendis.

Blað

Jurtin er rótalaus. Blaðsprotar marggreindir og hafa tálknkennd, greind blöð með oddmjóum flipum. Blöðin hafa hver um sig eina eða fleiri örsmáar (1,5–2 mm) veiðiblöðrur með opi sem loka er fyrir. Smádýr sogast inn í blöðruna vegna undirþrýsings í henni ef lokan opnast skyndilega við ertingu hára utan á henni (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómstöngullinn uppréttur með fáum blómum, gulum og heilkrýndum. Krónan varaskipt, 7–10 mm löng, með spora, blómginið þröngt (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund, auðþekkt á blöðrunum.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Einkum vex hún í gömlum mógröfum og í kyrru vatni í mýrarpollum eða blautum flóum innan um stör og vatnssósa mosa (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Blöðrujurt (Utricularia minor)