Blökkumaur (Lasius niger)

Útbreiðsla

Allt umhverfis norðurhvelið, frá N-Afríku norður til 64°N í Skandinavíu.

Ísland: Lengst af slæðingur en síðar landnemi á suðvestanverðu landinu; Reykjavík, Álftanes, Vatnsleysuströnd, Borgarnes, Hveragerði.

Lífshættir

Blökkumaur er einn algengasti maurinn í Evrópu og er hvað mest um hann í manngerðu uumhverfi, jafnt utanhúss sem innan. Búin eru oftast í veggjum, húsgrunnum og holum trjábolum. Blökkumaurinn finnast einnig í villtri náttúru. Búin eru mismunandi fjölliðuð, allt frá nokkur hundruð einstaklingum til um tíu þúsund. Maurarnir eru sólgnir í hunangsdögg blaðlúsa á gróðrinum. Þeir makast síðsumars og sjást þá stundum í miklum hersingum.

.

Almennt

Blökkumaurar hafa fundist af og til hér á landi síðan 1994 og nær árlega síðan 2002. Í flestum tilvikum hafa þeir komið sér upp búum í híbýlum og hefur stundum gengið illa að uppræta. Í einu tilviki fundust maurarnir í stóru trékefli undan rafmagnskapli og í öðru tilviki voru þeir í og við ruslagám sem stóð við verslun. Þeir höfðu e.t.v. borist til landsins með gámnum. Eitt tilvik er þekkt frá veitingastað í Reykjavík þar sem blökkumaurar hafa hafst við í það minnsta síðan 2006 og ekki gengið að uppræta þá. Í Vogum á Vatnsleysuströnd voru blökkumaurar augljóslega með búskap árið 2009. Blökkumaurar Í ræktunarstöð í Kópavogi voru blökkumaurar með bú 2016 og maurar komu inn í hús í Hveragerði 2017, sennilega utan úr garðinum. Án efa er tegundin landlæg hér en þó háð húsaskjóli, híbýlum og gróðurhúsum.

Blökkumaur er meðalstór maur, einlitur svartur á lit og verður honum ekki svo lýst hér að dugi til greiningar. Smásjárskoðun er nefnilega nauðsynleg.

Útbreiðslukort

Heimildir

Collingwood, C.A. 1979. The Formicidae (Hymenoptera) of Fennoscandia and Denmark. Fauna entomologica scandinavica Vol. 8. Scandinavian Science Press Ltd., Klampenborg. 174 bls.

Author

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009,Erling Ólafsson 26. mars 2013, 19. maí 2017, 22. mars 2018

Biota