Hagamús

Hagamúsin (Apodemus sylvaticus) er talin hafa komið hingað til lands með landnámsmönnum á 10. öld og er tegundina að finna um allt Ísland, þar sem gróður er að finna, ásamt nokkrum eyjum umhverfis landið. Hagamúsin er eina nagdýrategundin sem lifir villt í náttúru landsins óháð manninum (undantekning er húsamús (Mus musculus) í Vestmannaeyjum).

Útbreiðsla og búsvæði

Útbreiðsla hagamúsar er „evrasísk“ svo að á Íslandi er hagamúsin á ystu útmörkum til norðurs og vesturs en austurmörkin eru í Mongólíu. Hagamúsin er algengasta nagdýrið í laufskógum Bretlandseyja og norður Evrópu og nær útbreiðslan allt norður til Þrándheims í Noregi en suður til Himalaja, þó eru ekki hagamýs í Færeyjum. Útbreiðsla tegundarinnar nær allt suður til Persaflóa og til flestra eyja Miðjarðarhafsins, alla leið til Afríku, þangað sem hún barst með mönnum.

Latneska heiti hagamúsarinnar vísar til laufskóga enda er hún kölluð skógarmús (e. wood mouse) á þeim svæðum þar sem hún er algengust. Hagamúsin er ein tveggja músa innan Apodemus ættkvíslarinnar sem finnast í norður Evrópu en hin er A. flavicollis eða kragamús (e. yellow necked mouse). Kragamúsin er eilítið stærri og hefur gulbrúnan blett á bringu, sem er ekki á hagamúsinni. Þar sem báðar tegundirnar finnast er kragamúsin líklegri til að finnast í skóglendi sem sérhæfð frææta en hagamúsin virðist fjölhæfari í fæðu- og búsvæðavali og finnst gjarnan á jöðrum akra og í úthögum. Ekki er vitað hvort kragamýs hafi borist til landsins en líklegt má telja að fjölhæfni hagamúsarinnar og aðlögunarhæfni hafi komið henni að gagni til að lifa af við íslenskar aðstæður frá upphafi landnáms.

Stærð og útlit

Hagamúsin er frekar lítið nagdýr, er um 9-10 sentímetrar að lengd og vegur um 20-30 grömm. Eyrun og augun eru stór en skottið er lítið eitt styttra en líkaminn. Hagamýs eru brúnar með ljósan kvið og er skottið nánast hárlaust. Skinnið á skottinu er afar þunnt og rifnar auðveldlega af við átak. Þetta kemur að góðum notum sem vörn gegn því að verða klófest af rándýrum því skárra er að lifa skottlaus en láta lífið. Vegna þessa eiginleika er ekki ráðlegt að reyna að ná hagamús með því að grípa í skottið á henni. Húsamýs hinsvegar, hafa ekki laust skinn á skotti og því má halda þeim uppi á skottinu.

Fæðuval

Almennt eru hagamýs taldar vera fræætur enda eru fræ beyki og eikartrjáa meðal kjörfæðu þeirra. Annars eru þær ekki matvandar og éta flest sem ætilegt getur talist, ýmiskonar fræ, skordýr á ýmsum vaxtarskeiðum, snigla og mýs leggjast jafnvel á dýrahræ.

Hagamýs fara ekki í dvala að vetrum og safna gjarnan matarforða í hreiður sín. Fæðuvalið er því oft háð því hvort hægt sé að safna og geyma viðkomandi fæðutegund. Hér á landi eru hvorki eikar né birkiskógar svo á Íslandi safna hagamýsnar gjarnan berjum sortulyngs og hvannar eða hvaðeina sem hægt er að safna og geyma sem vetrarforða. Þær sem ekki eiga slíkan forða þurfa þó að fara út að leita fæðu, hvernig sem viðrar og oft má rekja spor hagamúsa í nýföllnum snjó langar vegalengdir.

Tímgun og félagskerfi

Tímgun fer einungis fram yfir hlýjustu mánuði ársins en á veturna eru kynfæri beggja kynja óvirk, eistun rýr og legháls lokaður. Í mars-apríl fara kynkirtlar af stað og eistu karldýra stækka. Eggjastokkar kvendýra virkjast og leghálsinn opnast. Fyrstu ungar sjást í maí á mildari svæðum en í júní á þeim sem teljast rýr. Meðgöngutíminn er yfirleitt rúmar 3 vikur en hann er breytilegur, spannar 19-30 daga eftir aðstæðum. Til dæmis verður egglos fljótlega eftir fæðingu og því getur kvendýr verið með unga á spena þegar meðganga næsta kynslóðar stendur yfir, í því tilfelli stendur meðgangan lengur. Gotstærðin er líka breytileg, þrír til níu ungar í goti sem hver vegur um 1 gramm, hárlausir og blindir við fæðingu. Hagamúsaungar vaxa hratt, fá feld á 12 dögum og hætta á spena 18-22 daga gamlir.  Hagamýs sem fæðast snemma að vori geta orðið kynþroska síðla sama sumars og taka því þátt í tímgun í samkeppni við kynslóð foreldra sinna. Hagamýs eru ekki félagslyndar og sér kvendýrið alfarið um að koma afkvæmum á legg. Óðul eða yfirráðasvæði kvendýra skarast ekki en eru talsvert minni en óðul karldýra. Karldýrin geta farið óhindrað um óðul kvendýra, sérstaklega eldri karlar, en þeir fara yfir svæði sem getur skarast en inniheldur óðul nokkurra kvendýra sem makast við hvern þann músakarl sem hún kemst í tæri við. Þannig fyrirkomulag kallast fjölveri þ.a. kerling á marga karlkyns maka en mætti líka kallast fjölkvæni þar sem karldýrin makast við margar músakerlingar.  

Stofnbreytingar

Í norðurhluta Evrópu eru árstíðarsveiflur í stofnum hagamúsa, í samræmi við tímgun sem eingöngu fer fram yfir sumartímann. Þar eru hagamúsastofnar stórir eftir að tímgun lýkur á haustin en ná lágmarki í upphafi tímgunar að vori. Ekki er um að ræða reglubundnar sveiflur þar sem stofninn nær hámarki á 3-5 ára fresti eins og þekkt er meðal norrænna nagdýra eins og læmingja (e. lemmus, lat. Lemmus spp.) og stúfmúsa (e. voles, lat. ). Mælingar á stofnstærð fara gjarnan fram á haustin þegar músastofnar eru í hámarki. Nokkrar slíkar rannsóknir hafa farið fram á Íslandi og benda niðurstöður þeirra til þess að munur sé á þéttleika hagamúsa eftir búsvæðum. Í hvannastóði undir Reynisfjalli í Mýrdal mældist þéttleiki til dæmis afar hár (>100 mýs/ha) en á túnum á Kjalarnesi er þéttleiki hagamúsa afar lágur (um 4 mýs/ha). Í blönduðu skóglendi við Mógilsá í Esjuhlíðum er haustþéttleiki líkari því sem mælist á Bretlandseyjum, um 20 mýs/ha. Stofnbreytingar eru gjarnan háðar fæðuframboði, til dæmis verða stofnar hagamúsa stórir þegar fræframleiðsla nær hámarki en slíkt er ekki talið sambærilegt við sveiflur læmingja sem ekki fylgja sveiflum í fæðuframboði. Á Íslandi hefur verið sýnt fram á að hitastig í upphafi vetrar hafi áhrif á lífslíkur og þar með stofnstærð hagamúsa. Sé kalt í veðri að hausti og fram á vetur, eru færri mýs sem lifa veturinn af og því minni stofn sem hefur tímgun að vori. Hagamýs lifa yfirleitt ekki lengur en eitt ár og lífslíkur eru lágar yfir vetrartímann. Kvenmýs af fyrstu kynslóð sumarsins geta orðið kynþroska og tekið þátt í tímgun síðsumars og þannig lagt sitt af mörkum til viðhalds stofnsins.

Sníkjudýr og sjúkdómar

Hagamýs bera með sér sníkjudýr, hvoru tveggja innvortis og utan á sér en ekki er vitað til þess að þær beri með sér nein sem eru skaðleg mönnum. Helstu athuganir hafa beinst að ytri sníkjudýrum. Þekktar eru tvær gerðir flóa sem sjúga blóð úr hagamúsum, fjórar tegundir sníkjumaura sem lifa á húðinni og ein tegund húðkirtlamaurs sem lifir í húðinni. Þá eru þekktar fjórar tegundir ormar í meltingarvegi og til viðbótar hefur fundist ein tegund frumdýrs í íslenskum hagamúsum.

Enn skortir skipulegar rannsóknir á sníkjudýrum í íslenskum hagamúsum sem áreiðanlega myndu leiða í ljós fleiri tegundir bæði innri og ytri óværu. Ekki hefur verið sýnt fram á tengsl milli sníkjudýraálags og stofnstærðar og ekkert er vitað um sjúkdóma í íslenskum hagamúsum.

Lagaleg staða, verndarstaða

Öll villt spendýr á Íslandi, fyrir utan mink, húsamús og rottur, eru friðuð í náttúrulegu umhverfi sínu samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

Hagamýs njóta verndar úti í náttúrunni en öðru máli gegnir um þær sem villast inn í mannabústaði. Ólíkt húsamúsum þá setjast hagamýs sjaldan að innan híbýla mannsins til frambúðar, fara inn þegar kalt er úti en flytja út þegar vorar og tímgun hefst. Heimilt er að veiða hagamýs innandyra en margir kjósa frekar að veiða þær í lífgildrur og sleppa þeim út í náttúruna þar sem þær eiga heima.

Hagamús hefur verið metin á válista spendýra. Hún telst ekki í hættu hér á landi né er hún á Evrópuválista eða á Heimsválista.

Bengtson, S.A., A. Nilsson og S. Rundgren 1989a. Population structure and dynamics of wood mouse Apodemus sylvaticus in Iceland. Holarct. Ecol. 12: 351–368.

Bengtson, S.A., A. Nilsson, S. Nordström og S. Rundgren 1976. Body weights of Apodemus sylvaticus in Iceland. Acta Theriologica 21: 389–399.

Bengtson, S.A., G. Brinck-Lindroth, L. Lundqvist, A. Nilsson og S. Rundgren 1986. Ectoparasites on small mammals in Iceland: origin and population characteristics of a species-poor insular community. Ecography 9: 143–148.

Flowerdew, J.R. 1977. Wood mouse Apodemus sylvaticus. Í Corbet, G.B. og H.N. Southern, ritstj. The handbook of British mammals, bls. 206–217. London: Blackwell.

Hansson, L. 1985. The food of bank voles, wood mice and yellow necked mice. Symp. Zool. Soc. Lond. 55: 141–168.

Jonsson, P. og B. Silverin 1997. The estrous cycle in female wood mice (Apodemus sylvaticus) and the influence of the male. Ann. Zool. Fennici 34: 197–204.

Jónsson, T., P. Lupton og U. Wykes 1938. The field mice of Iceland. J. Anim. Ecol. 7: 22–26.

Karl Skírnisson 1993. Nagdýr á Íslandi. Í Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson, ritstj. Villt íslensk spendýr, bls. 327–346. Reykjavík: Hið íslenska náttúrufræðifélag.

Karl Skírnisson 2004. Hagamús. Í Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson, ritstj. Villt íslensk spendýr, bls. 262–269. Reykjavík: Hið íslenska náttúrufræðifélag.

Montgomery, W.I. 1989. Population regulation in the wood mouse, Apodemus sylvaticus. I. Density dependence in the annual cycle of abundance. J. Anim. Ecol. 58: 465–475.

Montgomery, S.S.J. og W.I. Montgomery 1990. Intrapopulation variation in the diet of the wood mouse Apodemus sylvaticus. J. Zool. Lond. 222: 641–651.

Sæmundsson, B. og M. Degerbøl, M. 1939. Mammalia. The Zoology of Iceland 4: 1–52.

Tew, T.E., I.A. Todd og D.W. Macdonald 2000. Arable habitat use by wood mice (Apodemus sylvaticus). 2. Microhabitat. Journal of Zoology 250: 305–311.

Unnsteinsdóttir, E.R. 2014. Íslenska hagamúsin Apodemus sylvaticus: Stofnbreytingar og takmarkandi þættir á norðurmörkum útbreiðslu. Doktorsritgerð við Háskóla Íslands. Reykjavík: Háskólaprent.

Unnsteinsdottir, E.R., og P. Hersteinsson 2009. Surviving north of the natural range: the importance of density independence in determining population size. Journal of Zoology 277(3): 232–240.

Unnsteinsdottir, E.R. og P. Hersteinsson 2011. Effects of contrasting habitats on population parameters and diet of Apodemus sylvaticus (Rodentia) in south-western Iceland. Mammalia 75(1): 13–21.

Wilson, W.L., W.I. Montgomery og R.W. Elwood 1993. Population regulation in the wood mouse Apodemus sylvaticus (L.). Mammal Rev. 23: 73–92.