Hvítabjörn

Hvítabjörn (Ursus maritimus Pipps, 1774) er stærsta rándýr sem fyrirfinnst á landi og er útbreiddur með ströndum og á hafís allt umhverfis norðurheimskautið. Best kann hann við sig á næringarríku grunnsævi þar sem sjávarstrauma gætir og ísinn verður ekki of þykkur á veturna. Selir eru aðalfæðan og forsenda fyrir afkomu. Hvítabirnir geta ferðast langar vegalengdir í leit að fæðu og finnast gjarnan á rekís en suðurmörk útbreiðslu þeirra ráðast af því hvað vetrarísinn nær langt. Þar sem búsvæði og fæða hvítabjarna eru að svo miklu leyti tengd sjónum má nánast telja þá til sjávarspendýra enda ber latneska heitið það til kynna (Ursus = björn, maritimus = í sjó). Algengast er að nota heitið hvítabjörn yfir tegundina en ísbjörn og bjarndýr hafa einnig verið viðhöfð.

Lífshættir

Óhætt er að segja að hvítabjörn sé einkennisdýr norðurheimskautsins enda hefur hann aðlagast lífinu þar afar vel. Hann fer yfir stór svæði til að afla sér fæðu, fylgir árstíðabundnum hreyfingum á hafísnum og fer á staði þar sem selir safnast saman til tímgunar og fæðuöflunar. Þannig hafa lífshættir hvítabjarna aðlagast árstíðarbundnum lífsháttum sela.

Ólíkt öðrum björnum fara hvítabirnir yfirleitt ekki í vetrardvala, nema birnur með unga sem gera sér bæli til að eignast afkvæmi. Vegna þess hve birnirnir þurfa að ferðast mikið til að afla sér fæðu er ómögulegt fyrir þá að helga sér óðul eða yfirráðasvæði. Birnur geta þó átt það til að vera staðbundnar því þær kjósa gjarnan að gera sér bæli á sömu stöðum og áður. Hvítabirnir eru ekki félagslyndir en sjást þó stundum nokkrir saman þar sem fæðu er að finna, til dæmis við selalátur eða þar sem hafís er þunnur og auðvelt fyrir seli að komast upp til að anda og þurrka sig.

Stærð hvítabjarna gerir þeim kleift að varðveita miklar orkubirgðir í formi fitu og kemur það að góðu gagni þegar fæða er af skornum skammti. Fitan hjálpar einnig til við einangrun gegn kulda en undir húðinni er fitulag sem getur orðið allt að 11 sentímetra þykkt. Fitan er eðlislétt og hjálpar það til við flot í vatni og léttir dýrið á sundi. Feldurinn blotnar alveg inn að skinni en undirfeldurinn heldur hitastigi vatnsins við húðina stöðugu og virkar sem einangrun.

Tímgun

Hvítabirnir verða kynþroska 3–4 ára og geta átt afkvæmi vel framyfir tvítugt. Karldýr keppa sín á milli um hylli móttækilegra kvendýra og getur bardaginn orðið harður. Þeir stærstu og sterkustu ná að makast við flest kvendýr. Mökun fer fram í mars-apríl en fóstrið fer ekki að þroskast fyrr en í árslok. Kvendýrin sjá alfarið um umönnun unganna.

Birna með fangi þarf að fita sig allt sumarið og haustið en í desember grefur hún sig inn í skafl og liggur þar í hálfgerðum dvala næstu 2–3 mánuðina. Meðgangan er um tveggja mánaða löng en afkvæmin (húnarnir) fæðast um miðjan vetur, hárlausir og blindir, og vega minna en eitt kíló. Oftast eru húnarnir tveir í goti en annars einn, en sárasjaldan þrír. Húnarnir dvelja með móður sinni í og við bæli hennar til vors en þá eru þeir orðnir um 10 kg. Birnan hefur þá ekki étið í allt að sex mánuði og hefur tapað mestum orkuforða sínum. Hún fer þá af stað með húnana til sjávar á veiðar en forðast að hitta aðra birni, sérstaklega meðan húnarnir eru litlir. Þeir fylgja móður sinni næstu tvö árin og læra af henni að veiða og bjarga sér.

Birnur verða aftur móttækilegar um tveimur árum eftir síðasta got. Eftir það verða húnarnir að bjarga sér sjálfir um fæðuöflun og reyna að komast hjá árekstrum við eldri og sterkari birni. Birnur verða kynþroska lítið eitt yngri en karldýrin en aðeins tvær af hverjum þremur eru móttækilegar hvert ár, hinar eru með húna.

Hvítabirnir á Íslandi

Ekki er hægt að tala um hvítabirni sem íslenska tegund en þó hafa þeir tekið hér land af og til og teljast því til flökkudýra. Upplýsingar eru til um rúmlega 600 hvítabirni sem skráðir hafa verið hérlendis frá upphafi landnáms. Viss ónákvæmni er þarna um að ræða því vafalaust hafa einhver dýr gengið hér á land án þess að menn hafi haft þar vitneskju um eða skráð sérstaklega. Síðast varð vart við hvítabjörn við Hvalnes á Skaga í júlí 2016.

Ljóst er að hafís hefur mikið að segja hvort hingað koma hvítabirnir. Heildardreifing athugana um land fylgir vel mestu dreifingu hafíss við landið. Flestar athuganir á hvítabjörnum eru frá Mið- og Norðausturlandi.

Raunverulega tíðni hvítabjarna er varla unnt að meta nema síðustu 2–3 aldir. Frá 1951 sáust hvítabirnir annað hvert ár að meðaltali en árlega á fyrri hluta 20. aldar. Á heildina litið eru langflestar skráningar á hvítabjörnum frá 19. öld þegar birnir komu að jafnaði 2–3 sinnum á ári. Frá miðri 18. öld hafa að meðaltali komið hingað 1-2 birnir í hvert skipti en á fyrri hluta 18. aldar voru að meðaltali yfir fimm dýr hverju sinni. Sjálfsagt hafa hvítabirnir verið jafnalgengir á fyrri öldum en nánari upplýsingar eru einfaldlega ekki fyrir hendi.

Viðbrögð við landtöku hvítabjarna

Heimsóknir fimm hvítabjarna árin 2008 (tveir), 2010, 2011 og 2016 vöktu mikla athygli, hvoru tveggja innanlands og utan. Umræða skapaðist um réttmæti þess að drepa þessi flökkudýr, sem talin eru í útrýmingarhættu. Að sama skapi er ljóst að hvítabirnir munu aldrei þrífast hér á landi til lengri tíma vegna ísleysis og takmarkaðs fæðuframboðs, auk þess sem aðstæður eru ekki fyrir hendi fyrir birnur til að ala og koma upp afkvæmum.

Eftir heimsókn hvítabjarnanna 2008 skipaði þáverandi umhverfisráðherra starfshóp til að vinna tillögur um viðbrögð við hugsanlegri landtöku hvítabjarna á Íslandi. Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri að fella þá hvítabirni sem koma til landsins. Tillögurnar voru rökstuddar með þremur áhersluatriðum. Í fyrsta lagi þarf að gæta að öryggi almennings og búfjár því hvítabirnir geta valdið skaða. Í öðru lagi er vitað að þeir birnir sem hingað koma eru af austur- grænlenska hvítabjarnarstofninum, sem þolir það vel að nokkur dýr séu felld hér á landi af og til. Þriðja atriðið er að verulegur kostnaður er fólginn í björgunartilraunum á hvítabjörnum og að sá kostnaður sé ekki réttlætanlegur.

Starfshópurinn lagði jafnframt til að skipaður yrði viðbragðshópur vegna komu hvítabjarna sem í skyldu vera fulltrúar Ríkislögreglustjóra, Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, embætti yfirdýralæknis og skyttur.

Áhrif loftslagsbreytinga

Loftslagsbreytingar með tilheyrandi hlýnun undanfarna áratugi eru þegar farnar að hafa sýnileg áhrif á norðurhjaranum. Jöklar bráðna og yfirborð þeirra og útbreiðsla minnkar, hafís er þynnri og sum svæði leggur ekki nema yfir háveturinn. Hvítabirnir fara ekki varhluta af þessum breytingum og hefur þegar verið sýnt fram á neikvæð áhrif hlýnunar á lífshætti þeirra og afkomu.

Alþjóðanáttúruverndarsambandið (IUCN) hefur sérfræðingahóp á sínum snærum sem fylgist náið með afdrifum hvítabjarna. Um er að ræða 20 stofna sem þó eru ekki erfðafræðilega einangraðir því dýrin eru svo hreyfanleg. Sérfræðingahópurinn fylgist með fari dýra, líkamsástandi og tímgun. Helstu vandamál tegundarinnar er röskun búsvæða vegna breytinga á hafísnum sem hefur áhrif á fæðuskilyrði og tímgunarárangur. Jafnframt er mengun af völdum þrávirkra efna og þungmálma sem safnast upp í efstu stig fæðukeðjunnar farin að hafa áhrif á líkamsástand, lifun og tímgunarárangur. Ef ísþekjan rofnar eða verður of veik til að hvítabirnir geti farið yfir jafn stór svæði og áður munu stofnar líklega einangrast vegna hindrunar á genaflæði.

Verndarstaða

Samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eru hvítabirnir alfriðaðir hér á landi nema þeir ógni fólki og búfénaði á landi. Skýrt er kveðið á um að ekki megi drepa hvítabirni úti á sjó, hvort sem er á sundi eða ís.

Þau ríki sem eiga land að heimkynnum hvítabjarnarins standa saman að verndun hans með samningi sem undirritaður var í Osló árið 1973. Markmið samningsins er að vernda hvítabjörninn og búsvæði hans, sem og að tryggja sjálfbæra nýtingu hvítabjarnarstofna. Aðildarlöndin skiptast á þekkingu og starfa saman að verndun hvítabjarna, ásamt rannsóknum, vöktun og stjórnun. Á Grænlandi voru árið 2005 samþykkt lög sem fela í sér bann við truflun á fengitíma og friðun birna með húna. Um leið voru teknir upp veiðikvótar þar í landi.

Árið 2006 skilgreindi alþjóðanáttúruverndarsambandið (IUCN) hvítabjörninn sem tegund í yfirvofandi hættu (Vulnerable, VU) á hnattvísu. Starfshópur IUCN um málefni hvítabjarnarins (PBSG) spáir 30% hnignun stofnsins á hnattvísu á næstu 45 árum vegna loftslagsbreytinga og eiturefna í umhverfinu. Á Grænlandi og á Svalbarða er hvítabjörninn einnig skilgreindur í yfirvofandi hættu.

Hvítabjörn hefur verið metinn á válista spendýra. Ekki er hægt að meta tegundina á íslenskan válista þar sem hvítabjörn er flökkudýr en hefur hér ekki fasta viðveru. Á Evrópuválista og Heimsválista er hvítabjörn flokkaður sem tegund í nokkurri hættu.

Amstrup, S.C. 2003.  The Polar Bear: Ursus maritimus Biology, Management, and Conservation. Í Feldhamer, G.A., B.C. Thompson og J.A. Chapman, ritstj. Wild Mammals of North America, second edition, 27. kafli. Baltimore: Johns Hopkins University Press.

Benedikt Gröndal 1878. Dýrafræði. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.

Björn Teitsson 1975. Bjarnfeldir í máldögum. Í Björn Teitsson, Björn Þorsteinsson og Sverrir Tómasson, ritnefnd. Afmælisrit Björns Sigfússonar, bls. 23-46 . Reykjavík: Sögufélag.

Bragi Magnússon 1994. Bjarndýr á Tröllaskaganum. Súlur 21(34): 34–40.

Derocher, A.E., J. Aars, S.C. Amstrup, A. Cutting, N.J. Lunn, P.K. Molnár, M.E. Obbard, I. Stirling, G.W. Thiemann, D. Vongraven, Ø. Wiig og G. York 2013. Rapid ecosystem change and polar bear conservation. Conservation Letters 6: 368–375.

Einar Vilhjálmsson 2001. Hvítabirnir (Ursus maritimus). Sjómannadagsblað Austurlands, 11-16.

Frisch, J., N.A. Øritsland og J. Krog 1974. Insulation of furs in water. Comparative Biochemistry and Physiology Part A: Physiology47(2), 403–410.

Gunnlaugur Oddsen 1821. Almenn Landaskipunarfræði.

Jóhannes Áskelsson 1938. Um íslenzk dýr og jurtir frá jökultíma. Náttúrufræðingurinn 8(1): 6–7.

Jóhannes Friðlaugsson 1935. Hvítabjarnaveiðar í Þingeyjarsýslum. Eimreiðin 41(4): 388–403.

Jón Thorarensen 1944. Jóhann skytta. Í Rauðskinna V, bls. 84–91 . Reykjavík. Endurbirt í Rauðskinna hin nýrri, 1971.

Jónas Halldórsson 1973. Bjarndýr í Staðarbyggð. Súlur 3(5): 99–101.

Malcolm A. Ramsay, Ian Stirling. On the mating system of poar bears. Canadian Journal of Zoology, 1986, 64(10): 2142–2151.

Marteinn Einarsson (þýðandi) 1555. Ein Kristilig handbog. Kaupmannahöfn.

Menja von Schmalensee, Kristinn H. Skarphéðinsson, Hildur Vésteinsdóttir, Tómas G. Gunnarsson, Páll Hersteinsson, Auður L. Arnþórsdóttir, Hólmfríður Arnardóttir og Sigmar B. Hauksson 2013. Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra. Lagaleg og stjórnsýsluleg staða og tillögur um úrbætur. Skýrsla unnin fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra. Reykjavík: umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Rósa Rut Þórisdóttir 2018. Hvítabirnir á Íslandi. Reykjavík: Bókaútgáfan Hólar.

Þorvaldur Thoroddsen 1916–17. Árferði Íslands í þúsund ár. Kaupmannahöfn: Hið íslenska Fræðafjelag.

Þór Magnússon 1985. Jóhann skytta og bjarndýrsveiðari. Húnvetningur 10: 25–26.

Þórir Haraldsson 1991. Af eyfirskum hvítabjörnum. Norðurslóð 15(10): 10–11.

Þórir Haraldsson og Páll Hersteinsson 2004. Hvítabjörn. Í Páll Hersteinsson, ritstj. Íslensk spendýr. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Wiig, Ø., S. Amstrup, T. Atwood, K. Laidre, N. Lunn, M. Obbard, E. Regehr og G. Thiemann 2015. Ursus maritimus. The IUCN Red List of Threatened Species 2015

Ævar Petersen 2010. Hvítabjarnakomur á Íslandi, einkum á Norðurlandi, ásamt almennum upplýsingum. Í Þorsteinn Sæmundsson, Helgi P. Jónsson og Þórdís V. Bragadóttir, ritstj. Bls. 21–23. Húnvetnsk náttúra 2010. Málþing um náttúru Húnavatnssýslna á Gauksmýri 10. apríl 2010. Náttúrustofa Norðurlands vestra, NNV-2010-003. Sauðárkrókur: Náttúrustofa Norðurlands vestra.

Ævar Petersen og Þórir Haraldsson 1993. Komur hvítabjarna til Íslands fyrr og síðar. Í Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson, ritstj. Villt íslensk spendýr, bls. 74–78 . Reykjavík: Hið íslenska Náttúrufræðifélag og Landvernd.