Minkur

Minkur tilheyrir marðarætt (Mustelidae) sem er stærsta ættin innan ættbálks rándýra (Carnivora). Sá minkur sem býr á Íslandi nefnist Mustela vison og lifir hann villtur í Norður-Ameríku. Af henni eru til allt að 15 undirtegundir. Aðeins ein önnur minkategund er núlifandi en það er Mustela lutreola, evrópsk tegund sem er í útrýmingarhættu. Útbreiðslusvæði evrópska minksins hefur dregist verulega saman og finnst hann aðallega í Austur-Evrópu en einnig á litlum svæðum á Spáni og í Frakklandi.

Ameríski minkurinn er vinsæll og mikið notaður í feldiðnaði og hefur tegundin verið flutt heimshorna á milli til slíkrar ræktunar, þeir fyrstu komu til Íslands haustið 1931 frá Noregi. Minkar hafa víða sloppið út í náttúruna og virðast þeir hafa ótrúlega aðlögunarhæfni, enda er tegundin nú útbreidd um mestalla Evrópu, þar með talið á Íslandi.

Stærð og útlit

Minkur er stuttfættur með um 35–42 cm langan búk en skottið er um 16–18 cm langt. Stærðarmunur er mikill á kynjunum en að meðaltali vega kvendýr rúmlega 600 g og karldýr rúmlega 1200 g. Dýrin eru brún að lit með misstóra hvíta bletti á bringu og/eða höku. Ræktuð hafa verið þó nokkur litaafbrigði og hérlendis hafa veiðst minkar af hvítum, mjög dökkbrúnum og jafnvel svörtum lit, líklega nýlega sloppin í náttúruna úr nærliggjandi loðdýrabúum.

Feldur minka er úr tvennskonar hárum, þeli og vindhárum, og er þéttleiki þelsins allt að 80% meiri á vetrum en yfir sumartímann en vindhárin haldast óbreytt. Þelið er vatnsheld loftgildra og virkar vel sem einangrun gegn kulda, jafnvel í vatni.  Minkar eru flinkir að synda og geta kafað eftir bráð í vatni eða sjó. Göngulag þeirra er sérkennilegt vegna þess hve langt er á milli stuttra fóta.

Tímgun og félagskerfi

Fullorðnir minkar eru einfarar og forðast samneyti við aðra minka, nema á fengitíma sem stendur frá febrúar til apríl með hámarki í mars. Bæði kyn verða kynþroska á fyrsta vetri og á Íslandi taka flest kynþroska dýr þátt í tímgun. Hvort kyn um sig helgar sér óðal en á fengitíma flakka karldýr og leita að móttækilegum læðum að makast við. Steggurinn bítur fast í hnakka læðunnar meðan á mökun stendur en þá verður egglos. Læðan getur makast nokkrum sinnum á fengitímanum svo fleiri en einn faðir getur verið að einu goti. Kímblöðrur hefja þó þroskun í legvegg samtímis og tekur meðgangan um 30 daga. Á Íslandi er gotstærðin hjá minkum að meðaltali 6–7 hvolpar og flestir eru fæddir fyrrihluta maímánaðar. Læðurnar sjá einar um umönnun afkvæma og eru þeir á spena fyrstu fimm vikurnar en fara fljótlega að narta í fasta fæðu með móðurmjólkinni. Í ágúst eru hvolparnir nær fullvaxta og geta bjargað sér sjálfir en talið er að þeir séu alfluttir að heiman í október. Ekki er vitað hvað minkar geta orðið gamlir en elsti minkur sem aldursgreindur hefur verið á Íslandi var 7 ára steggur og elsta læðan var 6 ára.

Búsvæði og fæðuval

Vegna sundhæfileika minksins getur hann jafnt veitt sér til matar í vatni og á landi. Því er algengt að minkar haldi sig við sjávarsíðuna eða við ár, læki og vötn. Stór hluti fæðunnar eru fiskar, bæði úr sjó og ferskvatni en á matseðlinum eru einnig fuglar, egg þeirra og ungar. Jafnframt eru hagamýs og ýmsir hryggleysingjar hluti af fæðunni en ekki er talið að minkar éti ber. Framboð fæðu er stöðugra við sjávarsíðuna en inn til landsins og þar eru líklega kjörlendi minksins. Stærð óðala og lögun helgast af fæðuframboði og eru þau gjarnan löng og mjó, meðfram strandlengju eða árbakka. Minkar gera sér að jafnaði ekki greni sjálfir en finna hentug bæli milli steina í urðum, hleðslum, tóftum og jafnvel í ónotuðum refagrenjum. Minkar virðast geta gert sér margt að góðu og eru hvorki matvandir né þurftafrekir og sá eiginleiki, auk skorts á samkeppni, hefur líklega gert tegundinni auðvelt fyrir að setjast að hér á landi.

Veiði og stofnbreytingar

Ekki er vitað hversu stór minkastofninn er á Íslandi en minkar finnast í öllum landshlutum. Til eru gögn um minkaveiðar frá árinu 1958 sem nýta má, með ákveðnum fyrirvörum, sem vísitölu á stofnbreytingar. Samkvæmt veiðitölum jókst fjöldi veiddra minka á landinu öllu úr um 2.000 dýrum á ári um 1960 í rúmlega 7.000 dýr árið 2003. Árið 2012 hafði veiddum minkum aftur fækkað niður í um 3.000 dýr. Endurspegli veiðitölur stofnstærð virðist sem hrun hafi orðið í minkastofninum síðastliðinn áratug. Ýmissa skýringa hefur verið leitað og sýnt hefur verið fram á að samspil veðurfars og breyttra fæðuskilyrða skipta máli fyrir viðkomu minka. Ekki er vitað hvort sjúkdómar, sníkjudýr eða mengun hafi orsakað þessa skyndilegu fækkun í íslenska minkastofninum.

Hvort sem minkum heldur áfram að fækka hér á landi má telja líklegt að svo lengi sem minkar eru fluttir inn til loðdýraeldis, munu þeir halda áfram að sleppa úr haldi og lifa góðu lífi á því sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða.

Rannsóknir á minkum eru stundaðar hjá Náttúrustofu Vesturlands.

Lagaleg staða – verndarstaða

Ameríski minkurinn hefur breiðst hratt út, víða á kostnað dýrategunda sem fyrir voru. Meðal annars er talið að hnignun evrópska minksins tengist vanhæfi hans í samkeppni við hinn ameríska frænda sinn. Rannsóknir á áhrifum minka á fuglastofna á Íslandi eru af skornum skammti en þó er talið að hann eigi þátt í útrýmingu keldusvíns (Rallus aquaticus) og vitað er af staðbundnum áhrifum á varpárangur teistu (Cepphus grylle) og fleiri sjófuglategunda. Nú hefur minkur verið skilgreindur sem ágeng tegund á Íslandi og í fleiri löndum þar sem hann er talinn hafa valdið usla í vistkerfum.

Tveimur árum eftir að minkur var fyrst fluttur til landsins, eða árið 1933, voru sett lög um refaveiðar og refarækt. Í þeim var kveðið á um að ræktendur sem misstu dýr úr vörslu sinni skyldu borga sekt auk þess sem reglugerðir voru settar um útfærslu öryggismála í búunum. Á þessum tíma voru refir og minkar réttdræpir enda stóð þá yfir opinber útrýming refa á landinu.

Lög nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum mörkuðu tímamót hvað varðar verndarstöðu rándýra á Íslandi, því þeim var loks tryggð vernd í náttúru Íslands á sama hátt og öðrum villtum dýrum. Þetta átti þó aðallega við um ref því í lögunum er ákvæði sem kveður á um að umhverfisráðherra geti tekið ákvörðun um útrýmingu dýrategundar sem komið hefur til landsins af mannavöldum, það er minks. Með breytingu á lögunum árið 2002 var kveðið sérstaklega á um að minkar nytu ekki friðunar. Árið 2004 var lögunum aftur breytt og sett inn ákvæði sem heimilar hverjum sem er að stunda veiðar á minkum í náttúru Íslands, hvort sem viðkomandi er handhafi veiðikorts eða ekki. Þar með var útilokað fyrir minkinn að njóta nokkurs griðar hér á landi. Þess ber þó að geta að veiðar eru ekki heimilar á svæðum sem eru friðlýst vegna dýralífs en sé talin ástæða til má veiða minka í samráði við yfirvöld.

Karl Skírnisson 1993. Minkur. Í Páll Hersteinsson og Guttormur Bjarnason, ritstj. Villt Íslensk spendýr, bls. 79–102. Reykjavík: Hið íslenska náttúrufræðifélag, Landvernd.

Karl Skírnisson, Róbert A. Stefánsson og Menja V. Schmalensee 2004. Minkur. Í Páll Hersteinsson, ritstj., og Jón Baldur Hlíðberg. Íslensk spendýr, bls. 88–97. Reykjavík: Vaka-Helgafell.  

Maran, T., D. Skumatov, S. Palazón, A. Gomez, M. Põdra, A. Saveljev, A. Kranz, R. Libois og S. Aulagnier 2011. Mustela lutreola. The IUCN Red List of Threatened Species.

Menja von Schmalensee, Kristinn H. Skarphéðinsson, Hildur Vésteinsdóttir, Tómas G. Gunnarsson, Páll Hersteinsson, Auður L. Arnþórsdóttir, Hólmfríður Arnardóttir og Sigmar B. Hauksson 2013. Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra. Lagaleg og stjórnsýsluleg staða og tillögur um úrbætur. Skýrsla unnin fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra.

Rannveig Magnúsdóttir 2013. Minkur á Íslandi: fæðuval eftir kyni, búsvæðum, árstíðum og árum í ljósi umhverfis- og stofnstærðarbreytinga. Doktorsritgerð við Háskóla Íslands, Líf og vistfræðideild, Reykjavík.

Reid, F. og K. Helgen 2008. Neovison vison. The IUCN Red List of Threatened Species.

Róbert A. Stefánsson, Menja von Schmalensee, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Björn Hallbeck og Páll Hersteinsson 2008. Stofnstærð og vanhöld minks á Snæfellsnesi 2006–2007. Niðurstöður fyrri rannsóknar vegna tilraunaverkefnis umhverfisráðuneytisins um svæðisbundna útrýmingu minks. Fjölrit Náttúrustofu Vesturlands nr. 14. Stykkishólmur: Náttúrustofa Vesturlands.