Fjallalójurt (Antennaria alpina ssp. canescens)

Útbreiðsla

Fjallalójurt er fremur sjaldgæf og finnst aðeins á hinu landræna svæði hálendisins norðan jökla og um austanvert norðurland. Hún vex stundum hátt til fjalla (hæst 1070 m á Kirkjufjalli við Hörgárdal) en er einstöku sinnum einnig á melum á láglendi.

Búsvæði

Melkollar eða þurrar melbrekkur á láglendi eða í grýttum jarðvegi til fjalla (Hörður Kristinsson 2010).

Lýsing

Fremur smávaxin jurt (5–12 sm) með smáum, gráloðnum, oddbaugóttum blöðum. Blómgast í júní.

Blað

Stöngullinn lóhærður, blöðóttur; flest blöðin stofnstæð í hvirfingu, frambreið (2–3 mm) með stuttum broddi í endann (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin einkynja í sérbýli, mörg saman í litlum (5 mm), þéttstæðum körfum sem líkjast brúsk af gráum hárum. Reifablöðin 3–5 mm löng, græn við fótinn en brúnleit eða svarbrún ofan til, lensulaga. Krónan gul á karlblómum, purpurarauð á kvenblómum, hárfín (0,1 mm), 3–4 mm á lengd, umkringd fjölmörgum hvítum hárum (svifkrans). Stíllinn stendur upp úr krónupípunni á kvenblómunum; klofið fræni (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Fræ með svifkrans (Lid og Lid 2005).

Greining

Hún líkist fljótt á litið grámullu sem er miklu algengari. Fjallalójurtin hefur breiðari blöð og vex ekki í snjódældum (Hörður Kristinsson 1998).

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson. 1998. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (2. útg., texti óbreyttur frá 1986). Íslensk náttúra II. Mál og menning, Reykjavík.

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010