Fjalldrapi (Betula nana)

Útbreiðsla

Algengur, einkum um norðanvert landið en síst austan til á Suðurlandi. Hann vex mest frá láglendi upp í 700 m hæð, hæst fundinn í 850 m hæð í botni Bleiksmýrardals þar sem hann nær lengst inn í hálendið (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Frjótími:Blómgun getur hafist um miðjan maí en oftast fara frjókorn að dreifast í síðustu viku maí og nær frjódreifing hámarki öðru hvoru megin við mánaðamótin maí / júní. Vorveðrátta hefur mikil áhrif á það hvenær frjótíminn hefst, því hlýrri apríl þeim mun fyrr blómgast birkið. Frjótíminn stendur yfir í 2 – 3 vikur, háð veðri, ef kalt er og vætutíð getur tognað úr þeim tíma sem birkifrjó eru í lofti.

Víxlbinding: Víxlbinding er algeng meðal ættkvísla ættbálksins Fagales, t.d. elri, hesli, agnbeyki, beyki, eik og kastanía. Einnig er víxlbinding algeng við græn epli (fersk).

Skaðsemi

Ofnæmisviðbrögð: Birkifrjókorn geta valdið sterkum ofnæmisviðbrögðum.

Vistgerðir

Vex helst í móum og hálfdeigum mýrum (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Lágvaxinn runni (20–60 sm) með brúnleitum berki og nær kringlóttum, smáum blöðum. Blómgast í maí.

Blað

Runni með trjákenndar greinar og brúnleitan börk. Blöðin eru nær kringlótt, 6–8 mm í þvermál, tennt, hárlaus, stuttstilkuð, fjaðurstrengjótt (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin einkynja í stuttum öxum er nefnast reklar. Kvenreklarnir alsettir þrísepóttum rekilhlífum og standa þrjú blóm saman innan við hverja. Kvenblómin með eina frævu með tveim stílum. Karlblómin með tvo klofna fræfla (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið er mjóvængjuð hneta (Hörður Kristinsson 1998).

Afbrigði

Ósjaldan myndar hann kynblendinga við birki sem hafa odd á blöðunum líkt og birki en blöðin eru minni en á birkinu og runninn er oftast meir eða minna jarðlægur en rís þó verulega hærra en fjalldrapinn (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Greining

Það má greina fjalldrapa frá birki á því að hann er með mun minni og kringlóttari blöð (Hörður Kristinsson 1998).

Útbreiðslukort

Author

Hörður Kristinsson 2007

Vex helst í móum og hálfdeigum mýrum (Hörður Kristinsson 1998).

Biota