Skotinn örn og brenndir varphólmar

Meira hefur borið á vísvitandi truflun á varpslóðum arna en endranær og sáust merki um slíkt á 12 varpsvæðum af 75 sem könnuð voru. Varphólmar voru brenndir á tveimur svæðum, grjót borið í hreiður og hræður og flögg sett upp til að fæla erni frá óðulum, þrátt fyrir skýr ákvæði í lögum um friðhelgi arnarhreiðra og nánasta umhverfis þeirra. Þrátt fyrir alfriðun í nær heila öld finnast öðru hverju skotnir ernir. Í lok apríl fannst nýdauður, fullorðinn örn við Breiðafjörð og sáust a.m.k. fjögur högl á röntgenmynd sem tekin var af fuglinum.

Náttúrufræðistofnun Íslands vaktar arnarstofninn í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og Náttúrustofurnar í Stykkishólmi, Bolungarvík og Sandgerði.