Nokkrar nýjar tegundir fundnar í Esjufjöllum


Vætukorpa, Dermatocarpon bachmannii, er sjaldgæf korputegund sem einungis hefur fundist á tveimur öðrum stöðum á Íslandi. Með henni á myndinni má greina hrúðurkennda reitvörtu, Staurothele areolata. Ljósm. Starri Heiðmarsson.

Vel heppnuð rannsóknarferð á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands var farin í Esjufjöll í Breiðamerkurjökli dagana 9.-13. júlí 2007. Megintilgangur ferðarinnar var að kanna skordýr, fléttur og háplöntur Esjufjalla og þá einkum austasta hluta þeirra, Austurbjarga. Miklu var safnað af bæði fléttum og skordýrum og fundust m.a. fléttutegundirnar blaðkorpa (Dermatocarpon miniatum) og vætukorpa (Dermatocarpon bachmannii) sem og brunnklukka (Agabus solieri) í fyrsta skipti í fjöllunum. Fyrir voru þekktar rúmlega 100 tegundir háplantna í Esjufjöllum og fannst ein ný, barnarót (Coeloglossum viride). Þá var gróðurfar og smádýralíf kannað sérstaklega á jökulrönd framan Skálabjarga. Þar fundust 16 tegundir háplantna, ein fléttutegund og nokkrar skordýrategundir en nærumhverfi í urðinni er afar breytilegt vegna hreyfingar jökulsins og því undravert hve margar tegundir hafa náð að setjast að á jökulröndinni.

Esjufjöll


Esjufjöll í Breiðamerkurjökli. Ljósm. María Ingimarsdóttir.

Esjufjöll rísa hæst í rúmlega 1600 m hæð í ofanverðum Breiðamerkujökli. Þau samanstanda af fjórum fjöllum sem nefnast Vesturbjörg, Skálabjörg, Esjubjörg og Austurbjörg. Fjöllin hafa líklega verið íslaus síðan síðasta kuldaskeiði ísaldar lauk. Á síðustu öld komu fleiri jökulsker í ljós í Breiðamerkurjökli, Kárasker 1935, Bræðrasker 1961 og loks Maríusker 2000. Þar sem um ósnortið land er að ræða sem aldrei hefur verið beitt né nytjað á annan hátt af mönnum bjóða Esjufjöll og ofannefnd jökulsker einstakar aðstæður til að meta áhrif loftslagsbreytinga á lífríki. Aðstaða til rannsókna er einnig afar góð í Esjufjöllum en Jöklarannsóknafélagið á vandaðan skála í Skálabjörgum.

Rannsóknir á íslausum svæðum í Breiðamerkurjökli


Hálfdán Björnsson um það bil að fanga brunnklukku, Agabus solieri, en þær fundust í nokkru magni í lítilli tjörn í neðsta hluta Austurbjarga. Ljósm. Starri Heiðmarsson.

Hingað til hefur einkum verið fylgst með framvindu gróðurs í jökulskerjum Breiðamerkurjökuls. Framvinda gróðurs á Káraskeri og Bræðraskeri hefur verið vöktuð síðan 1965 og byrjað var að vakta gróður í Maríuskeri árið 2005. Á síðasta ári voru settir upp fastir mælireitir í lyngbrekkum Skálabjarga til að fylgjast með gróðurbreytingum þar. Árið 1979 dvaldi stór hópur vísindamanna í Esjufjöllum nokkra hríð en þá var bæði jarðfræði og smádýralíf kannað í Esjufjöllum auk gróðursins. Í fyrra sumar var byrjað að fylgjast markvisst með smádýrafánu Káraskers, Bræðraskers og Maríuskers og bættust Esjufjöll við þá vinnu með leiðangrinum í ár. Þessar ferðir marka upphaf doktorsverkefnis Maríu Ingimarsdóttur sem mun fjalla um landnám og framvindu smádýrasamfélaga á jökulskerjum. Síðar í sumar verður komið fyrir sjálfvirkri veðurstöð á Káraskeri sem styrkur fékkst fyrir frá Kvískerjasjóði en stöðin mun skrá hita og raka, vindhraða og vindáttir.

Leiðangursmenn

Leiðangursmenn voru: Starri Heiðmarsson grasafræðingur og María Ingimarsdóttir skordýrafræðingur frá Náttúrufræðistofnun, Hálfdán Björnsson á Kvískerjum og Grétar Pálsson úr Reykjavík, sem aðstoðaði leiðangursmenn.