Surtseyjarleiðangur 2008

Hrafn verpur í Surtsey
Það sem vakti mesta athygli leiðangursmanna var að hrafn er tekinn að verpa í Surtsey. Þar voru hrafnshjón með þrjá fleyga unga. Laupur þeirra fannst í stóra gígnum á vesturhluta eyjarinnar þar sem hrafnar hafa áður byggt laupa en ekki orpið svo vitað sé. Við laupinn og í gígnum voru mikil ummerki eftir krumma og var greinilegt að hann hafði borið í unga sína egg fýls og ritu og einnig máfsunga. Sýnir þetta að æti er orðið nægilegt í Surtsey til bera uppi afræningja eins og hrafninn sem trónir nú efst í fæðukeðju eyjarinnar. Hrafninn er fjórtánda fuglategundin og fimmti landfuglinn sem tekur að verpa í Surtsey.


Hrafnslaupur á syllu í gígvegg. Krummi hefur einkum notað melgresishálm, spýtnabrak, járnbúta og bandspotta til að byggja laupinn sem var illa farinn af traðki eftir ungana. Ljósm. Erling Ólafsson

Gróður dafnar
Leiðangursmenn fundu að þessu sinni 63 tegundir háplantna á lífi í eyjunni og hafði þeim fækkað um tvær frá fyrra ári. Engir nýir landnemar komu í leitirnar gagnstætt því sem var árin 2006 og 2007 þegar fimm nýjar tegundir bættust í flóru eyjarinnar hvort ár sem var óvenjumikið. Bendir þetta til að eitthvað hafi hægt á landnámi tegunda í bili. Gróska og þekja gróðurs hafði hins vegar aukist umtalsvert í máfavarpinu á suðurhluta eyjarinnar og á norðurtanga hennar þar sem miklar breiður eru orðnar af fjöruarfa, melgresi og bláililju. Þegar komið er út fyrir máfavarpið er Surtsey hins vegar enn bergangursleg yfir að líta og gróður mjög strjáll. Andstæður í gróðri í eyjunni eru því miklar og skiptir þar sköpum hvort mikilla áburðaráhrifa gæti af sjófuglum eða ekki. Þessi munur kom vel fram í mælingum sem gerðar voru á jarðvegsöndun og ljóstillífun. Þar sem gróska var mest í máfvarpinu var virkni um tvöhundruðföld á við það sem mældist í strjálum fjöruarfa á vikursvæðum eyjarinnar.

Gróður í máfavarpi Gróður í máfavarpi
Horft til máfavarpsins á suðurhluta Surtseyjar. Strjáll fjöruarfi er í sandorpnu hrauninu ofan við varpið enda áburðaráhrif þar lítil. Þegar kemur niður í varpið er land hins vegar klætt þéttum og gróskumiklum gróðri. Ljósm. Sigurður H. Magnússon Þéttgrónir melgresishólar í máfavarpinu. Hér er helsta varpland svartbaksins, en hann hefur átt þátt í að skapa það með næringu sem hann hefur borið frá sjónum. Ljósm. Sigurður H. Magnússon.

Bjarni Diðrik Sigurðsson mælir ljóstillífun og jarðvegsöndun í máfavarpi. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Eftir að Surtsey myndaðist fóru þar fram talsverðar rannsóknir á landnámi og útbreiðslu mosa fram til um 1975 en þeim hefur lítið verið fylgt eftir. Í nýafstöðnum leiðangri var þráðurinn tekinn upp og mosum safnað um alla eyju svo hægt verði að kortleggja útbreiðslu þeirra og tegundasamsetningu að nýju. Alls hafa verið skráðar 75 mosategundir í eyjunni en líklegt er að þeim fjölgi verulega þegar greiningum á nýju sýnunum er lokið.


Gróa Valgerður Ingimundardóttir við söfnun mosa í hrauninu á suðurhluta Surtseyjar. Ljósm. Sigurður H. Magnússon.

Rannsóknum á sveppum hefur mjög lítið verið sinnt í Surtsey og hafa flestar þeirra 24 tegunda sem skráðar eru í Surtsey fundist við aðrar rannsóknir. Það var því mál til komið að sveppafræðingur heimsækti eyjuna. Ekkert fannst af hattsveppum í leiðangrinum enda hefur verið þurrt í veðri og sveppatíminn ekki genginn í garð. Ýmsir aðrir sveppir fundust þó á lifandi plöntum, plöntusinu, rekaviði og víðar, en þeir verða ekki fullgreindir nema í rannsóknastofu. Sveppafræðingurinn mun fara aftur til Surtseyjar í ágúst þegar meiri líkur eru á að finna hattsveppi.


Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir safnar sveppum í Surtsey. Ljósm. Erling Ólafsson.

Mýrakönguló nemur land
Smádýralíf var fjörugt. Þegar er ljóst að nýjar tegundir smádýra fundust en frekari niðurstöður munu liggja fyrir síðar þegar úrvinnsla hefur farið fram. Mýrakönguló (Pardosa sphagnicola) sem fannst í máfavarpinu er tvímælalaust athyglisverðasti landneminn en tvö fullorðin karldýr fundust og kvendýr með eggjapoka og ókynþroska ungviði. Mýrakönguló er af ætt hnoðaköngulóa sem flestum eru kunnar. Ekki er ljóst hvernig tegundin hefur getað borist til Surtseyjar. Einnig vakti athygli að sveifflugur (Syrphidae) höfðu borist til eyjarinnar frá meginlandi Evrópu í umtalsverðum mæli, en þeirra varð einnig vart á Hjaltlandseyjum og Færeyjum nokkrum dögum fyrr. Í leiðangrinum var í fyrsta sinn sett upp tjaldgildra í eyjunni til að safna fleygum skordýrum. Þessi gildra hefur ekki verið notuð áður hér á landi. Hún var sett upp í máfavarpinu og sannaði þar ágæti sitt því mikið safnaðist af skordýrum í hana.

Mýrarkönguló Erling safnar skordýrum
Mýrakönguló, kvendýr með eggjapoka. Nýr og óvæntur landnemi í Surtsey. Ljósm. Erling Ólafsson. Erling Ólafsson við tjaldgildruna í máfavarpinu, en vel aflaðist í þessa nýju gildru. Ljósm. Borgþór Magnússon


Fuglar
Varp fugla virðist hafa gengið mjög vel í Surtsey 2008. Stóra fréttin um hrafnana hefur þegar verið sögð. Í máfavarpinu voru mun fleiri fuglar en áður hefur sést. Mest var um svartbak en honum hefur fjölgað ár frá ári. Sílamáfar voru einnig margir og er greinilegt að æti er nú meira í sjó við eyjuna en í fyrra þegar varp þeirra misfórst að mestu. Silfurmáfum vegnaði einnig vel. Ritur voru fleiri í bjarginu nú en í fyrra og margar á hreiðrum. Varp fýls og teistu var í svipuðu horfi og fyrri ár. Lundi sást fljúga að og frá bjargi og var þar greinilega um varpfugla að ræða, en hann hefur verpt í eyjunni frá 2004. Sólskríkjur voru og með fleyga unga, fáein pör, og 2 – 3 pör þúfutittlinga héldu til í máfavarpinu. Þar fannst nú hreiður með ungum. Ekki varð vart við maríuerlur að þessu sinni en þær hafa stöku sinnum verpt undanfarin ár. Grágæsir sáust ekki og hafa þær sennilega ekki orpið í ár. Þó mátti víða sjá gæsaskít og merki um beit á grasi sem gæti verið frá vorinu. Aðrir landfuglar sem sáust voru tjaldur, heiðlóa, sandlóa, lóuþræll, steindepill og svartþröstur en hann er sjaldséður gestur í eyjunni. Einn karlfugl hélt þar til meðan á leiðangrinum stóð.

Svartbaksungar Þúfutittlingsungar
Stálpaðir svartbaksungar á bjargbrún. Varp máfa tókst mjög vel í Surtsey sumarið 2008. Ljósm. Erling Ólafsson. Sex nýklaktir og svangir ungar þúfutittlings í hreiði við hraunhellu. Ljósm. Erling Ólafsson.

Surtsey á heimsminjalista UNESCO
Hinn 8. júlí bárust leiðangursmönnum þær gleðilegu fréttir að samþykkt hefði verið á fundi heimsminjanefndar UNESCO að setja Surtsey á heimsminjalista Sameinuðu þjóðanna. Voru Surtseyjarfarar mjög upp með sér af þessu, enda höfðu þeir flestir tekið þátt í að afla gagna um Surtsey og taka saman efni í tilnefningarskýrsluna. Grunnurinn að þessari tilnefningu er tvímælalaust sú framsýni að hafa friðað eyjuna til vísindarannsókna og fræðslu árið 1965. Surtseyjarfélagið hefur alla tíð verið bakhjarl rannsókna í eyjunni og tryggt þar nauðsynlega aðstöðu fyrir vísindamenn með því að koma þar upp húsi og þyrlupalli. Einnig hefur félagið séð um útgáfu skýrslna um rannsóknir í Surtsey og síðustu ár haldið úti vefsíðu um eyjuna. Formaður Surtseyjarfélagsins frá upphafi hefur verið Steingrímur Hermannsson.

Leiðangursmenn
Þátttakendur frá Náttúrufræðistofnun voru Borgþór Magnússon, leiðangursstjóri, Erling Ólafsson, Gróa Valgerður Ingimundardóttir, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir og Sigurður H. Magnússon, en Bjarni Diðrik Sigurðurðsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Frá kanadíska ríkissjónvarpinu (CBC) í Quebeck voru þeir Bernard Laroche og Andre Bernard ásamt Dúa Landmark kvikmyndatökumanni.

Árið 2007 veitti Toyota á Íslandi Náttúrufræðistofnun myndarlegan þriggja ára styrk til rannsókna í Surtsey sem hefur gert kleift að efla rannsóknir í eyjunni, sjá frétt.


Leiðangursmenn í Surtsey. Talið frá vinstri Bernard Laroche, Bjarni D. Sigurðsson, Erling Ólafsson og Dúi Landmark í neðri röð, Andre Bernard, Gróa V. Ingimundardóttir, Guðríður G. Eyjólfsdóttir, Borgþór Magnússon og Sigurður H. Magnússon í efri röð.

Umfjöllun um Surtsey á vef Náttúrufræðistofnunar