Fiðrildavertíð NÍ er hafin

Verkefninu Vöktun fiðrilda er gerð ítarleg skil annars staðar á vef Náttúrufræðistofnunar og er því óþarft að lýsa því frekar hér. Þetta er fimmtánda árið sem sýnataka fer fram. Hún hófst á tveim stöðum árið 1995 en í ár eru sýnatökustaðir fimm á Suðurlandi á vegum stofnunarinnar og samstarfsmanna. Auk þess fer fram sambærileg sýnataka á einum stað á vegum Náttúrustofu Norðausturlands, þ.e. við Ásbyrgi, og hafa stofnanirnar um það gott samstarf.

Verkefnið hefur stóraukið þekkingu okkar á stofnum íslenskra fiðrilda og margt áhugavert hefur komið í ljós. Það má merkja breytingar á háttum gamalgróinna tegunda og vísbendingar hafa komið fram um nýja landnema og að tegundir sem berast reglulega til landsins með vindum séu teknar að fjölga sér og jafnvel lifa íslenska veturinn af.

Kálmölur (Plutella xylostella) hefur til langs tíma verið algengastur flækingsfiðrilda hérlendis en vetur hafa verið honum of harðir til að þrauka til næsta vors. Það virðist vera að breytast. Nokkuð hefur borið á kálmöl undanfarið. Tveir sáust við sumarbústað í Þingvallasveit þar sem matjurtaræktun er stunduð, einn barst inn í hús í Reykjavík og enn einn hafnaði í fiðrildagildru undir Eyjafjöllum. Kálmölur er orðið gott dæmi um áhrif hlýnandi loftslags.

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur á NÍ, setur upp ljósgildru á Tumastöðum í Fljótshlíð 16. apríl 2009. Ljósm. Erling Ólafsson. Kálmölur (Plutella xylostella) í Surtsey 17. júlí 2006. Ljósm. Erling Ólafsson.