Vöktun fiðrilda undir áhrifum eldsumbrota

Upphaf vöktunar og vöktunarstaðir

Markviss vöktun fiðrilda hófst hér á landi á vegum Náttúrufræðistofnunar árið 1995 og var hefðbundnum og viðurkenndum aðferðum beitt við sýnatökur. Vöktunarstaðir voru tveir í upphafi, á Tumastöðum í Fljótshlíð og Kvískerjum í Öræfum. Sýnataka hefur síðan verið óslitin á báðum stöðunum.

Sýnataka fór fram í Skaftafelli í nokkur ár en var aflögð. Nýir staðir komu til síðar sem hér segir: Mógilsá í Kollafirði 2005, Rauðafelli undir Eyjafjöllum 2005 og Skógar undir Eyjafjöllum 2006.Smellið á mynd til að nálgast dagskrá og nánari upplýsingar um þingið.Smellið á mynd til að nálgast dagskrá og nánari upplýsingar um þingið.

Gildruljósin tendruð 16. apríl 2010. Ljósm. Erling Ólafsson. Birkivefari er fyrstur á kreik í birkiskógum. Öskufall á Skógum gæti reynst honum þrándur í götu. Ljósm. Erling Ólafsson.

Vöktunarstaðir undir áhrifum eldsumbrota

Þrír ofangreindra staða eru í næsta nágrenni eldstöðvanna, þ.e. Tumastaðir í Fljótshlíð og Rauðafell og Skógar undir Eyjafjöllum. Það kemur sér nú vel að eiga sýnaseríur frá þessum stöðum til að geta metið hvort öskufallið muni hafa áhrif á afdrif fiðrildanna og þá hver þau verða.

Ljósgildrurnar sem notaðar eru til fiðrildaveiðanna voru settar upp 16. apríl síðastliðinn. Þá um strax kvöldið snérist vindur til norðanáttar og aska tók að falla yfir jarðir sunnan Eyjafjalla. Á Rauðafelli var 10 mm jafnfallið öskulag á jörðu morguninn eftir og rétt mátti grilla í ljósaperu gildrunnar í myrku kófinu þó komið væri hádegi. Það verður spennandi að sjá hvernig smádýrunum reiðir af á þessum slóðum í sumar.

Aðkoma nýrra aðila að fiðrildavöktun

Náttúrustofa Norðausturlands á Húsavík hóf fiðrildavöktun að Ási í Kelduhverfi 2007 og hafði um það full samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands. Stofan mun færa út kvíar í sumar og koma upp nýrri gildru á Skútustöðum í Mývatnssveit. Þá mun Náttúrustofa Austurlands í Neskaupstað leggja út gildrur á þrem stöðum á Austurlandi í sumar og Fiskasafnið í Vestmannaeyjum, í samvinnu við Náttúrustofu Suðurlands, gildru í Stórhöfða.

 

Samskiptanet fiðrildaáhugafólks

Verið er að leggja drög að samskiptaneti þátttakenda í fiðrildavöktun undir umsjón Náttúrufræðistofnunar. Öðrum sem hafa áhuga á að fylgjast með á þeim vettvangi og vilja um leið fræðast um þessi áhugaverðu smádýr er velkomið að tengjast hópnum. Þeir geta tilkynnt sig til Erlings Ólafssonar á Náttúrufræðistofnun (erling@ni.is).