Acta Botanica Islandica nr. 15 er komin út

Í heftinu segja Geir Mathiassen o.fl. frá fyrsta fundi asksveppsins Hypoxylon macrosporum hérlendis en hann fann Geir á dauðum gulvíðigreinum í Skaftafelli er hann var þar á göngu með fjölskyldu sinni sumarið 2005. Sýninu er lýst og fjallað um útbreiðslu tegundarinnar á heimsvísu, hýsla og fyrri rannsóknir á ættkvíslinni Hypoxylon. Hér á landi hafði aðeins ein tegund ættkvíslarinnar, kolbeðja, H. multiforme, fundist einu sinni.

Gróa Valgerður Ingimundardóttir o.fl. skýra frá niðurstöðum rannsókna sinna á íslenskum vorblómum, einkum grávorblómi, Draba incana. Aðferð til að skoða litninga var aðlöguð þessari smáu plöntu sem hérlendis reyndist vera ferlitna (2n=32) eins og aðrir stofnar tegundarinnar. Þurrkuð sýni vorblóma í grasasöfnum Náttúrufræðistofnunar, ICEL og AMNH, voru skoðuð og reyndust flest þeirra rétt greind.


Camptosphaeria citrinella á kanínuskít úr Öskjuhlíð í Reykjavík. Mjög sjaldgæfur taðsveppur. Ljósm. Michael J. Richardson

Michael J. Richardson fjallar um niðurstöður rannsóknar sinnar á fungu fleiri íslenskra taðsýna en í síðasta hefti Acta Botanica Islandica sagði hann frá fungu taðs sem hann safnaði á hringferð um landið árið 2002. Í greininni er fjallað um 44 sýni sem var að mestu safnað sumarið 2006 er höfundur tók þátt í söfnunarferð félaga Sænska sveppafræðifélagsins um Suðurland og fór í framhaldi af því á Snæfellsnes og norður á Skaga. Þessu til viðbótar rannsakaði hann eitt sýni af kanínuskít úr Öskjuhlíð og fékk send fimm sýni af gæsaskít sem safnað var í Surtsey sumarið 2008. Skítinn setti hann í rakaklefa og skráði þær tegundir sem spruttu upp næstu 6 til 16 vikurnar. Alls skráði hann 75 tegundir á þessum 44 sýnum, þar af 19 sem fundust í fyrsta sinn hérlendis. Líklega var tegundin Camptosphaeria citrinella, sem óx á kanínuskít, athyglisverðasti fundurinn því hún er ákaflega sjaldgæf og er þetta í fyrsta sinn sem hún finnst eftir að henni var lýst í Svíþjóð árið 1972. Skítur grasbíta er búsvæði sem margir sveppir nýta sér og er mikill fengur af þessum rannsóknum á tegundasamsetningu sveppa á íslensku taði.

Wolfgang van Brackel lýsir nýrri fléttuháðri tegund, Lichenopeltella rangiferinae, sem óx á grákrókum í Hrútey í Blöndu við Blönduós, og getur alls 22 fléttuháðra sveppa, þar af 13 sem ekki höfðu fundist áður hér á landi. Sveppunum safnaði hann á þremur svæðum árið 2008: í Hrútey, á Egilsstöðum rétt við Lagarfljót og í Skaftafelli. Ennþá hafa tiltölulega fáir fléttuháðir sveppir verið skráðir í fungu Íslands og má því búast við að töluvert margar tegundir bætist við í hverri rannsókn af þessu tagi enn um sinn.

Þá er í heftinu síðasta grein þörungafræðingsins Ivka M. Munda frá Ljubljana í Slóveníu um rannsóknir hennar á íslenskum þörungum. Ivka M. Munda, sem lést árið 2009, rannsakaði þörunga við strendur landsins á árunum 1963 til 1980 og lýsti tegundasamsetningu og beltaskiptingu þeirra. Sýnin sem hún safnaði eru varðveitt í Kaupmannahöfn og upplýsingar um þau eru aðgengilegar í gagnasafni GBIF. Greinin fjallar um þörunga á sunnanverðu Austurlandi í lok sjöunda áratugar síðustu aldar þar sem kaldur sjór úr norðri mætir heldur hlýrri og saltari sjó úr suðri. Þar lýsir hún mjög skörpum skilum og snöggum breytingum á tegundasamsetningu þörunga þar sem í Hrollaugseyjum séu norðurmörk hlýsjávartegunda en við Krossanes séu suðurmörk þess svæðis sem kaldsjávaráhrifa gætir að staðaldri. Skilin milli hafstraumanna voru þá milli Hvalness og Stokksness.

Aftast í heftinu er skrá yfir útgefnar greinar Ivka M. Munda sem fjalla um rannsóknir hennar á íslenskum þörungum.

Ritstjóri Acta Botanica Islandica er Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. Á vef Náttúrufræðistofnunar er hægt að nálgast greinar úr eldri heftum tímaritsins.

 

Efnisyfirlit Acta Botanica Islandica nr. 15:

Mathiassen, Geir, Granmo, Alfred, Eyjólfsdóttir, Guðríður Gyða & Stensrud Øyvind. Hypoxylon macrosporum P. Karst., a new species for Iceland. 3-9.

Ingimundardóttir, Gróa Valgerður, Kristinsson, Hörður & Anamthawat-Jónsson, Kesara. Cytotaxonomical study of Draba incana L. from Iceland. 11-22.

Richardson, Michael J. Additions to the Coprophilous Mycota of Iceland. 23-49.

An erratum in Acta Botanica Islandica no. 14 (2004) p. 93. 50.

Brackel, Wolfgang von. Lichenopeltella rangiferinae sp. nov. and some other lichenicolous fungi from Iceland. 51-60.

Munda, Ivka M. Floristic and vegetational discontinuity along the frontal zone in southeastern Iceland. 61-79.

An overview of Ivka Maria Munda's algal research in Iceland 1963-2009. 81-84.