Steingervingarannsóknir fá byr undir báða vængi

Við rannsóknirnar fær Friðgeir í lið með sér öflugan hóp vísindamanna frá Danmörku, Færeyjum, Svíþjóð, Austurríki og Bandaríkjunum. Ætlunin er að safna steingervingum á vesturströnd Grænlands yfir sumartímann og þar verður rannsóknarteymið selflutt á milli jarðlagaopna með þyrlu. Vonast Friðgeir og samstarfsmenn hans til að með rannsóknunum verði mögulegt að rekja uppruna og þróun margra viðarkenndra plöntuhópa sem í dag einkenna heittempruðu og tempruðu laufskógarbeltin á norðurhveli jarðar. Einnig er talið að niðurstöður geti varpað ljósi á hvaða gróðurfarsbreytingum megi búast við á norðurslóðum samfara hlýnandi loftslagi.
Friðgeir Grímsson lauk doktorsprófi í steingervingafræði frá Háskóla Íslands árið 2007, en við námið rannsakaði hann steingervinga úr vísindasafni Náttúrufræðistofnunar og hafði jafnframt aðstöðu til rannsókna hjá stofnuninni. Doktorsritgerð Friðgeirs fjallar um gróðursamfélög á Íslandi frá míósen tímabilinu, þ.e. uppruna og þróun 15 til 6 milljón ára steingerðra gróðursamfélaga frá Vestfjörðum og Vesturlandi.
Árið 2011 kom út bókin Late Cainozoic Floras of Iceland sem fjallar um niðurstöður rannsókna á plöntusteingervingum í íslenskum jarðlögum, kortlagningu þeirra og aldursgreiningar. Friðgeir er einn höfunda bókarinnar, hann nýtti steingervingasafn Náttúrufræðistofnunar til rannsóknanna og var jafnframt starfsmaður stofnunarinnar um tíma. Við rannsóknir sínar hefur Friðgeir bætt á annað þúsund plöntusteingervingum í safn Náttúrufræðistofnunar. Segja má að bókin hafi lagt grunn að styrknum sem austurríski rannsóknasjóðurinn hefur nú veitt Friðgeiri.
Friðgeir er staddur hér á landi þessa dagana ásamt samstarfsfélaga sínum, steingervingafræðingnum dr. Torsten Wappler frá Bonn í Þýskalandi, en þeir rannsaka steingerð skordýr og för eftir skordýr á plöntusteingervingum í steingervingasafni Náttúrufræðistofnunar.