Gróðureldarnir í Heiðmörk 6. júní – ferkílómetri verður að 0,4 hekturum

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa kannað svæði það sem varð eldi að bráð í Heiðmörk þann 6. júní. Þá var greint frá í fréttum að mikill eldur hafi komið upp í gróðri og brennt um 1 km2 (100 ha) lands. Slökkvilið var kallað út náði fljótt tökum á eldinum og kom í veg fyrir að hann breiddist út. Svæðið sem brann er utan í lágri hæð við suðurjaðar Hjallaflata. Reið- og göngustígur er undir hæðinni og er líklegt að kviknaði hafi út frá tóbaksglóð. Mjög þurrt hefur verið á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar vikur og gróður skraufaþurr.

Þegar komið var á brunasvæðið varð strax ljóst að stærð þess var sem betur fer aðeins brot af því sem skotið hafði verið á. Við úttekt var gengið með jöðrum svæðisins með GPS-tæki til að staðsetja það á korti og ákvarða flatarmál nákvæmlega. Ljósmyndir voru einnig teknar. Kortlagning brunasvæðisins leiðir í ljós að það er aðeins 0,4 ha að flatarmáli, eða 1:250 hluti þess sem talið var í fyrstu. Hér skeikar því ærið miklu. Ungur, lágvaxinn furuskógur var á um fjórðungi svæðisins en lúpína á bróðurparti þess og lynggróður með norðurjaðri (loftmynd).

Ummerki á svæðinu benda til að eldurinn hafi verið mestur í lúpínubreiðunni en þar er allur hálmur horfinn og skín í bera mold. Þá hafa nokkrar furur kolast en meginhluti skógarins virðist aðeins hafa sviðnað og er líklegt að flest furutrén lifi. Skaði af brunanum getur því vart talist mikill.

Í samanburði við aðra gróðurelda á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum er þessi bruni í Heiðmörk mjög lítill. Sumarið 2007 brann um 9 ha svæði á Miðdalsheiði ofan Reykjavíkur þegar eldur kom upp í mosaþembu. Sömuleiðis urðu allmiklir eldar við Hafnarfjörð vorið 2008 þegar kveikt var í lúpínubreiðum á nokkrum stöðum. Þá brunnu alls um 10 ha. Sumarið 2009 var eldur í hrauni austur af Helgafelli og brann þá svæði sem er áþekkt að stærð og brunasvæðið í Heiðmörk. Eldarnir standast þó engan samjöfnuð við gróðureldana miklu á Mýrum vorið 2006 en þá fór eldur yfir 7100 ha landsvæði.

Skæður eldur í lúpínunni í Heiðmörk kemur ekki á óvart en mikil hálmur af gömlum lúpínustönglum myndast með tímanum í lúpínubreiðum. Mælingar sem gerðar voru á höfuðborgarsvæðinu vorið 2012 sýna að lúpínuhálmur getur numið yfir 12 tonnum á ha í gömlum lúpínubreiðum. Er það nær tífalt meira magn en var á landinu sem brann á Mýrum 2006.