Arnarstofninn stækkar en varpárangur 2012 er með slakasta móti

Ernir verpa snemma eða um miðjan apríl og eru því viðkvæmir fyrir vorhretum og eins truflunum af mannavöldum sem því miður þekkist enn á vissum svæðum. Sæferðir, eitt helsta ferðaþjónustufyrirtækið við Breiðafjörð, gengur þar á undan með slæmu fordæmi  og hefur siglt ólöglega að arnarhreiðrum og truflað fuglana á viðkvæmum tíma snemma vors. Þá hafa óprúttnir aðilar skemmt arnarhreiður og komið upp hræðum og öðrum búnaði til að hindra arnarvarp.

Arnarvarpið 2012 gekk ágætlega við Faxaflóa en afar illa við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Enginn ungi komst upp við norðanverðan fjörðinn og aðeins einn ungi er að verða fleygur um þessar mundir á Vestfjörðum. Þetta er annað árið í röð sem arnarvarp gengur illa. Til lengri tíma litið eru þó góðar horfur með arnarstofninn eftir tiltölulega góða viðkomu undanfarin tíu ár. Stofninn er í vexti og  nokkur pör hafa helgað sér óðul á nýjum stöðum eða tekið sér bólfestu á fornum setrum.

 

Upplýsingar um ferðir og afdrif arna hafa margfaldast eftir að farið var að litmerkja ungana árið 2004. Nú er til dæmis þekkt að ungir fuglar af öllu varpsvæði arnarins fara á síld í fjörðunum á norðanverðu Snæfellsnesi á útmánuðum. Eins er nákvæmlega vitað hvenær sumir ernir helga sér óðul, hefja varp og koma upp ungum og  hversu langt þeir flytja sig frá heimahögum. Yngsti örninn sem komið hefur upp ungum var fimm ára karlfugl sem varp um 12 km frá æskuóðalinu. Sá fugl (assa) sem lengst hefur farið fannst nú í sumar með hreiður tæpa 100 km frá æskuóðalinu. Systir hennar frá sama ári (2005) átti eldra met (87 km). Þær stöllur eru um þessar mundir að koma samtals þremur ungum á legg.

Rannsóknir og ítarleg vöktun á arnarstofninum byggist á samvinnu Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofanna í Stykkishólmi, Bolungarvík og Sandgerði, en ekki síst á óeigingjörnu framlagi áhugamanna. Finnur Logi Jóhannssonar hefur m.a. borið hitann og þungann af vöktun stofnsins úr lofti og Hallgrímur Gunnarsson hefur haldið utan um arnarstarfið við Faxaflóa.