Litmerktir fálkar!


Kvenfálkinn AU var merktur í S-Þingeyjarsýslu sumarið 2011 en hafði vetursetu og sumardvöl á Suðurlandi árið 2012.

Allt fram til 2011 höfðu fálkar aðeins verið merktir með hefðbundnum stálhring en til að lesa á slík merki þurfti fuglinn að finnast dauður eða að komast undir manna hendur á annan máta. Sumarið 2011 var byrjað að litmerkja fálka og síðan hafa verið litmerktir um 100 fálkar. Litmerkin eru rauð með ágröfnum hvítum stöfum sem hægt er að lesa á úr fjarska. Hentug leið til að lesa á slík merki er að ljósmynda fuglana. Til að fá slíkar upplýsingar treystir Náttúrufræðistofnun á liðsinni almennings.


Fálkinn HR, karlfálki á 1. hausti, dvaldi við Eyarbakka fram í mars 2013. Hann var einnig merktur í S-Þingeyjarsýslu.

Nú nýverið bar vel í veiði! Ung stúlka frá Eyrarbakka, Ólöf Helga Haraldsdóttir, las á tvo fálka í sinni heimabyggð. Þetta voru fálkarnir AU og HR. Fálkinn AU, sem er kvenfugl merktur sem ungi í hreiðri sumarið 2011 í Suður-Þingeyjarsýslu, sást sumarið 2012 á Eyrarbakka og var mest við hesthúsahverfið rétt utan byggðarinnar og sást þar renna sér eftir kanínum meðal annars. Þetta voru reyndar ekki fyrstu fréttirnar af AU en Örn Óskarsson líffræðikennari á Selfossi hafði séð þann fugl veturinn á undan við ósa Ölfusár. Þannig að þessi Þingeyski fálki hafði bæði vetursetu og sumardvöl á Suðurlandi. AU hvarf á braut haustið 2012 en þar með var ekki sagan öll. Nú birtist fálkinn HR, karlfálki á 1. hausti, og hann dvaldi við Eyarabakka fram í mars 2013. HR sást eltast við kanínur en einnig tók hann æti sem lagt var út fyrir hann, dauðar hænur og gæsir. Þetta var reyndar ekki eini fálkinn sem hélt sig á þessum slóðum nú í vetur, annar ungfugl var þar líka og upp á sama kost, kanínur og dauðar hænur. Fálkinn HR er einnig úr Þingeyjarsýslum og reyndar Bárðdælingur en ættaður úr Mývatnssveit þaðan sem móðir hans kemur.

Vonir standa til að á næstu árum muni litmerkingar bæta miklu við þekkingu okkar á stofnvistfræði fálka. Framlag almennings skiptir hér máli og mikilvægt að hvetja alla sem ná myndum af merktum fálkum eða lesa af litmerkjum að senda upplýsingarnar til Náttúrufræðistofnunar.