Mosaskemmdir við iðnaðarsvæðið í Hellnahrauni í Hafnarfirði

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur á undanförnum árum rannsakað gróðurskemmdir við iðnaðarsvæði á landinu svo sem við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun (pdf, 7,7 MB), álverin í Reyðarfirði, á Grundartanga og í Straumsvík (pdf, 17,8 MB) en einnig við orkuverið í Svartsengi. Rannsóknirnar tengjast flestar vöktun á loftborinni mengun, einkum þungmálmum, í andrúmslofti sem hefur staðið í áratugi. Hér á landi og í Evrópu hefur mosasýnum verið safnað á fimm ára fresti á fjölmörgum stöðum og nokkrir þungmálmar og brennisteinn mældur í þeim. Þannig hefur tekist að greina styrk mengandi efna í umhverfi og finna helstu uppsprettur þeirra.

Í byrjun júlí 2014 fóru starfsmenn Náttúrufræðistofnunar að Hellnahrauni í Hafnarfirði til að kanna hugsanlegar skemmdir á gróðri við háspennulínuna sem flytur orku að álverinu í Straumsvík en þekkt er að galvanhúðuð háspennumöstur geta valdið skemmdum á gróðri í sínu næsta nágrenni (Frumrannsóknir á gróðurskemmdum við háspennumöstur á Suðvesturlandi). Áhugavert þótti að kanna skemmdir á mosa við línuna en sett hafði verið fram sú tilgáta að háan styrk nokkurra þungmálma sem mælst hefur í mosa við Hellnahraun mætti rekja til háspennulínunnar (Tæring í mastri talin orsök blýmengunar).

Í ljós kom að mosinn hraungambri (Racomitrium lanuginosum (Hedw.) Brid.) var sums staðar mikið skemmdur við iðnaðarsvæðið í Hellnahrauni en hann er ríkjandi á hraununum við Hafnarfjörð eins og víðast á ungum hraunum hér á landi. Ákveðið var að kanna þetta nánar og dagana 29.–31. júlí 2014 var gróður skoðaður og skemmdir kortlagðar með kerfisbundnum hætti við háspennulínuna og sunnan við hana þar sem hún liggur meðfram iðnaðarsvæðinu í Hellnahrauni.

Kortlagning skemmda

Afmörkuð voru snið u.þ.b. hornrétt á háspennulínuna, eitt út frá hverju mastri og síðan eitt á milli þeirra. Á hverju sniði var mosi skoðaður á stöðum með um 60 m millibili, bæði beint undir línunni og síðan í um 150 og 300 m fjarlægð frá henni þar sem því var við komið vegna bygginga og gatna. Alls voru skoðurnarstaðir 46 að tölu.

Mosaskemmdir

Við mat á skemmdum var notaður eftirfarandi kvarði:

Útbreiðsla skemmda

Skemmdir á mosa var að finna allvíða á rannsóknarsvæðinu en þær voru mjög mismiklar. Langmestar voru þær næst lóð fyrirtækisins Furu sem er á milli gatnanna Gjáhellu og Berghellu. Skemmdirnar teygja sig þaðan til suðvesturs en úr þeim dregur tiltölulega hratt með aukinni fjarlægð. Þar sem skemmdir voru mestar var nánast allur mosi dauður og endurvöxtur ekki sjáanlegur. Háplöntur virtust hins vegar ekki hafa orðið fyrir eins miklum áhrifum en tegundirnar krækilyng, bláberjalyng, beitilyng og blávingull litu út fyrir að vera þar í allgóðum vexti.

Mosaskemmdir var að finna á tiltölulega takmörkuðu svæði norðvestan við öll háspennumöstur.

Hvenær skemmdist mosinn og hvers vegna?

Með því að skoða loftmyndir frá mismunandi tímum má fá upplýsingar um hvenær skemmdir komu fram og greina útbreiðslu þeirra. Á loftmynd frá 2009 eru skemmdir greinilegar og er útbreiðsla þeirra svipuð þeirri sem fékkst með kortlagningunni 2014 (loftmynd hér að ofan).

Á loftmynd sem tekin var 10 árum fyrr eða 1999 sést að skemmdir eru þá komnar fram umhverfis þáverandi iðnaðarsvæði í Hellnahrauni og við háspennumöstur.

Á loftmynd sem tekin var 1985, þ.e. áður en iðnaðaruppbygging hófst í Hellnahrauni, eru mosaskemmdir ekki greinilegar nema við háspennumöstur.

Skemmdir við háspennumöstur voru því komnar fram strax árið 1985 og má þær að öllum líkindum rekja til efna sem úr möstrunum koma við veðrun. Miðað við loftmyndirnar má ætla að skemmdinar við iðnaðarsvæðið hafi byrjað eftir að starfsemi hófst á svæðinu á milli Berghellu og Gjáhellu. Útbreiðsla skemmdanna bendir eindregið til þess að þær megi rekja til þeirrar starfsemi sem þar hefur farið fram.

Athyglisvert er að á svæðinu eru skemmdir í flokkum 1-2 (litlar og nokkrar skemmdir) allvíða að finna á rannsóknarsvæðinu. Þetta eru að öllum líkindum nýlegar skemmdir, sem sýnir að svæðið er undir verulegu álagi. Lélegur endurvöxtur mosa á verst förnu svæðunum bendir í sömu átt.

Ályktanir

Fyrri mælingar hafa sýnt að sunnan við iðnaðarsvæðið í Hellnahrauni hefur styrkur nokkurra efna í mosa reynst hærri en víðast hvar annars staðar á landinu. Einkum eru það þungmálmarnir blý, sink, arsen og nikkel auk brennisteins. Útbreiðsla þessara efna bendir til þess að arsen, nikkel og brennisteinn komi frá álverinu en að blý og sink og raunar fleiri efni megi að verulegu leyti rekja til þeirrar iðnaðarstarfsemi sem starfrækt er í Hellnahrauni.

Ekki er ljóst hvað valdið hefur mosaskemmdunum við Hellnahraun en ef þær endurspegla styrk þeirra efna sem nefnd eru hér að ofan er fátt sem bendir til þess að þau komi eingöngu frá háspennulínunni. Í ljósi þess að hér er um verulegar skemmdir að ræða er mikilvægt að rannsaka nánar hvað þeim veldur. Í því sambandi er m.a. áhugavert að kanna betur efnainnihald í gróðri við Hellnahraun, einkum blý og sink.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður H. Magnússon gróðurvistfræðingur.