Frjómælingar í júlí

Þau frjókorn sem valda aðallega ofnæmi í júlí og ágúst eru gras- og súrufrjó. Á Akureyri var heildartala frjókorna 642 frjó/m3 sem er undir meðaltali áranna 1998–2015 (844 frjó/m3). Þar af voru súrufrjó samtals 30 frjó/m3 og grasfrjó 500 frjó/m3.

Í Garðabæ mældust tæplega 1.300 frjó/m3 sem er yfir meðaltali áranna 2011–2015 (955 frjó/m3). Súrufrjó voru nánast samfellt í lofti allan mánuðinn en í litlu magni og var heildartalan 114 frjó/m3. Grasfrjó í júlí urðu 1.040 frjó/m3 og hafa þau ekki mælst hærri í einum mánuði í Garðabæ frá því að mælingar hófust.

Frjótíma súru er nú að ljúka en súrufrjó gætu þó haldið áfram að mælast í ágúst. Verði veður þurrt, hlýtt og vindasamt gætu komið dagar þar sem frjótölur verða háar. Nokkrar grastegundir eru enn að blómstra og dreifa frjóum sínum, einkum erlendir slæðingar og túngrös, og er uppspretta grasfrjóa því ennþá til staðar.

Í Garðabæ sýnir reynslan að frjótölur grasa eru mun lægri í ágúst en í júlí, einkum þegar frjótölur hafa verið háar í júlí eins og í ár. Á Akureyri voru frjótölur grasa hins vegar lágar í júlí og því góðar líkur á að  frjótölur verði háar í ágúst.

Nánar um frjómælingar

Fréttatilkynning um frjómælingar í júlí 2016 (pdf)