Tíðindalítið af arnarvarpstöðvunum

Arnarstofninn vex hægt og bítandi og taldi um 74 pör vorið 2016. Varpið var hins vegar það slakasta frá 2006, enda gekk örnum illa að koma upp ungum við norðanverðan Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Fleiri pör, 52 talsins, urpu en undanfarin ár en varpið misfórst hjá meira en helmingi þeirra. Þá var meðalungafjöldi í hreiðri með allralægsta móti (1,08 ungi/hreiðri) og komu 25 pör því aðeins upp 27 ungum. Ekki eru augljósar skýringar á þessu.

Við Faxaflóa og sunnanverðan Breiðafjörð gekk arnarvarp ágætlega en var lélegt við norðanverðan fjörðinn en þar komu 18 pör aðeins upp fjórum ungum. Enginn ungi komst á legg á Vestfjörðum en fimm við Húnaflóa þar sem arnarstofninn hefur styrkst verulega á undanförnum árum. Nú halda ernir til á sex óðulum af þeim tuttugu sem þekkt eru við flóann frá öndverðu og fullorðnir fuglar voru á tveimur setrum að auki. Ernir sjást reyndar nú orðið reglulega um land allt en eru þó langalgengastir á  varpslóðunum vestanlands. Þrátt fyrir slakan varpárangur eru framtíðarhorfur hafarnarins hér á landi bjartar. 

Þróun arnarstofnsins er þekkt frá síðari hluta 19. aldar en hann hefur verið  vaktaður árlega frá 1959. Saga hans er því betur þekkt en hjá nokkrum öðrum fuglastofni hér á landi. Vegna skipulegra ofsókna og eiturútburðar fækkaði örnum hratt allt til 1914 en þá voru þeir alfriðaðir. Stofninn tók þó ekki að hjarna við fyrr en hálfri öld síðar eftir að bannað var að bera út eitur fyrir refi árið 1964 og telur hann 74 pör árið 2016. Ófylltir hringir tákna gróft mat en svartir talningar.

Aðeins hluti af þeim arnarpörum sem hafa helgað sér óðal verpa á hverju ári. Hlutfall varpara (1994–2016) var að jafnaði um eða innan við 70% og fór aldrei yfir 80% (bláir þríhyrningar ásamt 5-ára keðjumeðaltali). Varpárangur (1994–2016), það er hlutfall þeirra para sem urpu og komu síðan upp ungum var mun breytilegra (opnir hringir ásamt 5-ára keðjumeðaltali). Heildarvarpárangur (1963–2016), það er hlutfall allra óðalspara sem kom upp ungum hefur haldist nokkuð stöðugur frá 1980 og verið að jafnaði 0,3–0,5. Innan við helmingur paranna kemur því upp ungum ár hvert.

 

Viðkoma íslenska arnarstofnsins (1963–2016) er slök samanborið við arnarstofna í Skandinavíu og við Eystrasalt. Hvert óðalspar kemur að jafnaði upp 0,4–0,6 ungum upp á ári (rauðir hringir ásamt 5-ára keðjumeðaltali. Hefur þetta hlutfall að jafnaði haldist óbreytt 1980 en það var óvenju lágt sumarið 2016 eða 0,36 og hafði þá ekki verið lægra síðan 1993.

Meðalungafjöldi hjá þeim arnarpörum sem koma upp ungum (1963–2016) hefur einnig haldist tiltölulega stöðugt síðan 1980 (bláir hringir ásamt 5-ára keðjumeðaltali). Að jafnaði hefur einn ungi verið í um 2/3 hreiðra og tveir ungar í þriðjungi þeirra. Þrír ungar komast afar sjaldan upp úr sama hreiðri, síðast 2011 og 1995. Meðaltalið er því um 1,3 ungar í hreiðri en var aðeins 1,08 árið 2016, það lægsta frá 1993. Þetta lága gildi leiðir til hinnar lágu viðkomu arnarins 2016.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með vöktun arnarstofnsins í náinni samvinnu við Náttúrustofu Vesturlands og fuglaáhugamenn.