Hörður Kristinsson áttræður

Áttræður er í dag, 29. nóvember, dr. Hörður Kristinsson grasafræðingur. Hörður er einn afkastamesti náttúrufræðingur landsins og liggja eftir hann rúmlega 150 ritsmíðar auk þess sem hann hefur safnað gögnum varðandi plöntur landsins í rúm 60 ár.

Hörður Kristinsson, grasafræðingur, er fæddur 1937 á Akureyri en alinn upp á Arnarhóli í Eyjafjarðarsveit. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri (MA) árið 1958 og hélt að því loknu til Göttingen í Þýskalandi til náms í grasa- og dýrafræði og plöntusjúkdómum. Að loknu fyrrihlutaprófi við háskólann í Göttingen kenndi Hörður við MA veturinn 1962–1963 en eftir það hélt hann aftur utan og lauk doktorsprófi í grasafræði árið 1966. Titill doktorsritgerðar hans er Untersuchung zum sexuellen Entwicklungsgang von Pseudopeziza medicaginis (Lib.) Sacc. und Drepanopeziza ribis (Kleb. v. Höhn). Að prófi loknu hóf Hörður rannsóknir á íslenskum fléttum í samstarfi við W. Culberson við Duke-háskóla í Norður-Karolínuríki í Bandaríkjunum. Hörður dvaldi vestra árin 1967–1970 að sumrunum 1967 og 1968 undanskildum þegar hann safnaði fléttum víða um land.

Árið 1970 fluttist Hörður heim aftur og hóf störf við Náttúrugripasafnið á Akureyri og Lystigarð Akureyrar. Hann var skipaður prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands 1977 og gengdi hann því starfi í tíu ár. Árið 1987 fluttist hann aftur norður og tók við starfi forstöðumanns Náttúrufræðistofnunar Norðurlands. Þegar Náttúrufræðistofnun Norðurlands var sameinuð Náttúrufræðistofnun Íslands 1994 stýrði Hörður Akureyrarsetri stofnunarinnar til 1999. Eftir að Hörður lét af starfi forstöðumanns starfaði hann sem sérfræðingur við stofnunina þar til hann fór á eftirlaun árið 2007. Síðustu starfsárin sinnti hann jöfnum höndum rannsóknum á fléttum og háplöntum. Hins vegar dró lítið úr framlagi Harðar til grasafræði Íslands þrátt fyrir að eftirlaunaaldri væri náð og hefur hann undanfarin 10 ár unnið ötullega að ýmsum hugðarefnum sínum innan grasafræðinnar.

Eftir Hörð liggja margar ritsmíðar, um það bil 150 greinar, ritgerðir og bókarkaflar sem hann hefur skrifað einn eða í samstarfi við aðra. Hann hefur sinnt vísindastörfum af kostgæfni á ferli sínum en hann hefur ekki síður reynst afkastamikill alþýðufræðari. Kunn er bók hans Íslenska plöntuhandbókin sem fyrst kom út 1986 og hefur vakið áhuga margra á plöntum. Hún hefur verið þýdd á ensku og þýsku. Árið 2016 sendi Hörður frá einnig frá sér bókina Íslenskar fléttur.

Auk bókaskrifanna hefur Hörður um árabil haldið úti vefsíðunni Flóra Íslands og birt þar myndir af fjölmörgum tegundum plantna og sveppa auk margháttaðs fróðleiks. Einnig kom hann á fót Flóruvinum árið 1998, sem er vettvangur fyrir áhugafólk um plöntur. Á þeim vettvangi hefur hann gefið út fréttablaðið Ferlaufung þar sem birtur er ýmiss konar fróðleikur um plöntur, meðal annars er greint frá nýjum tegundum og fundarstöðum. Undir hatti Flóruvina skipulagði Hörður „Dag hinna villtu blóma“ á Íslandi en þar er almenningi boðið til plöntuskoðunar undir leiðsögn. Dagurinn hefur verið haldinn samtímis víða um land á hverju sumri frá 2004, síðast á 10 stöðum árið 2014, en um norrænan viðburð er að ræða sem haldinn er samtímis á öllum Norðurlöndunum. Þá vann Hörður, í samvinnu við Sigmund H. Brink hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, smáforrit fyrir snjallsíma. Það er plöntulykill sem þykir mjög aðgengilegur í notkun og hefur notið mikilla vinsælda.

Hörður hefur alla tíð verið vörður íslenskrar tungu og á degi íslenskrar tungu árið 2002 var hann sæmdur viðurkenningu Mennamálaráðuneytisins fyrir starf sitt að gagnagrunni um íslensk plöntunöfn. Á nýársdag 2016 var Hörður sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir rannsóknir og kynningu á íslenskum gróðri.

Frumkvöðlastarf Harðar á sviði íslenskrar fléttufræði er vel þekkt en hann var einnig brautryðjandi í rannsóknum á útbreiðslu íslenskra plantna. Hörður var fljótur að sjá möguleikana sem felast í að varðveita gögn á stafrænu formi en hann á heiðurinn að gagnagrunni Náttúrufræðistofnunar Íslands um sveppi og plöntur sem hann hóf að byggja upp snemma á 9. áratugnum. Í dag geymir gagnagrunnurinn meira en 600 þúsund færslur er vísa til sýna í plöntusöfnum Náttúrufræðistofnunar eða vettvangsskráninga.

Náttúrufræðistofnun Íslands óskar Herði innilega til hamingju með daginn.