Slæm viðkoma refa á Hornströndum

Viðkoma refa á Hornströndum var með slakasta móti árið 2019. Óðul voru færri en venjulega, got sjaldgæfari og yrðlingar fáséðari en áður.  Þetta endurspeglar mögulega slæma afkomu bjargfugla ásamt fleiru, eins og kemur fram í nýútkominni skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um vöktun refa á Hornströndum árið 2019.

Í skýrslunni er greint frá vöktun refa í friðlandinu á Hornströndum árið 2019 en þangað var farið í þrjár vettvangsferðir og dvalið þar í samtals 29 daga. Í mars var farið í Hornvík til að kanna fjölda og ástand dýra að vetrarlagi og fylgjast með fæðunámi, tímgun og óðalsmyndun. Í júní var farið á öll þekkt greni í Hornvík, Rekavík bak Höfn, Hælavík og Hlöðuvík, auk þess sem eitt greni var heimsótt í Kjaransvík. Athugað hvort sömu dýr væru í Hornvík og sáust þar í mars og hvort þau hefðu parað sig og helgað sér óðul í samræmi við athuganir á þeim tíma. Kannað var hversu mörg pör væru með yrðlinga, yrðlingar voru taldir og lagt mat á hversu mörg fullorðin dýr héldu sig á óðali. Í ágúst var farið í Hornvík til að kanna afdrif yrðlinga og ástand fullorðinna refa. Auk þessa fengust upplýsingar frá áreiðanlegum aðilum um fjölda og ástand refa á öðrum tímum og svæðum innan friðlandsins, aðallega frá Kvíum í Lónafirði og frá Hesteyri en einnig frá Veiðileysufirði.

Helstu niðurstöður eru þær að í mars sáust alls 10–11 dýr í Hornvík, sem eru nokkuð færri dýr en hafa sést þar á þessum árstíma í fyrri ferðum, að árinu 2014 undanskildu. Í júní og júlí kom í ljós að yrðlingar voru aðeins á 25–30 % grenja sem að jafnaði eru talin. Einungis þrjú pör voru með yrðlinga á greni í austanverðri Hornvík, í stað 5–7 para eins og oft hefur verið. Fæðan sem borin var heim á hin tvö grenin var aðallega ritur. Hvorki sáust fýlshræ á grenjum né ummerki um að þau væru borin heim. Í vesturhluta Hornvíkur, Rekavík bak Höfn og Hvannadal voru tvö greni í ábúð, en á þessu svæði eru þrjú óðul að öllu jöfnu. Í Hælavík var einungis eitt greni staðfest í ábúð, í stað 3–4 að jafnaði. Stærsta og auðugasta óðalið í Hælavíkurbjargi bar engin merki um ábúð og er það í fyrsta skipti í a.m.k. 21 ár sem svo er.

Ljóst er að afkoma bjargfugla hefur áhrif á refi í Hornvík og ef fuglunum fækkar getur það skýrt fækkun og stækkun refaóðala sem virðist hafa átt sér stað bæði í Hornbjargi og Hælavíkurbjargi. Einnig getur aukinn fjöldi ferðamanna og viðvera fólks við greni haft verulega neikvæð áhrif á afkomu yrðlinga að sumarlagi.

Nánari upplýsingar er að finna í skýrslunni Refir á Hornströndum: áfangaskýrsla um vöktun árið 2019