Surtseyjarleiðangur jarðfræðinga 2021

Rannsóknaleiðangur jarðfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands til Surtseyjar var farinn 15.–18. júlí. Í leiðangrinum var unnið að landmælingum og loftmyndatöku með flygildum, mælingar gerðar á hitaútstreymi, sýni sótt og ný undirbúin vegna langtímarannsókna á borholum og ný rannsókn gerð á fótsporum manna sem hafa varðveist í móberginu í Surtsey.

Landmælingar og þrívíddarmyndataka

Endurteknar voru landmælingar frá 2019 og loftmyndir teknar með flygildi. Mæld voru fastmerki á eyjunni, einnig flögg sem sett voru út vegna þrívíddarmyndatöku og punktar vegna rannsókna á fótsporum manna í móbergi.

Ágætar loftmyndir náðust af yfirborði Surtseyjar og verða þær notaðar til að útbúa nýtt þrívíddarlíkan af eynni, sambærilegt líkani frá 2019. Með nýja líkaninu verður hægt að skoða yfirborð eyjarinnar á nákvæman hátt og sjá breytingar sem orðið hafa, svo sem sjávarrof, setflutninga og fleira. Ummerki um rof voru greinileg á eyjunni, sérstaklega við hliðar austurbunkans þar sem gilin höfðu víkkað töluvert í vatnsveðrum frá síðasta leiðangri 2019.

Jarðhiti á yfirborði

Síðan 1968 hefur verið fylgst reglulega með þróun jarðhitakerfis Surtseyjar með því að mæla hitaútstreymi í sprungum sem finnast í gjóskubunkunum tveimur á eynni. Gögnin gefa áhugaverðar niðurstöður um kólnandi eldfjallaeyju og ekki er vitað til þess að sambærileg vöktun hafi verði gerð annars staðar í heiminum. Þó að útbreiðsla jarðhita í Surtsey hafi dregist saman með árunum og hitastig fari lækkandi mælist enn í dag um 80–90°C hiti á allmörgum stöðum í efri hluta gjóskubunkanna. Í leiðangrinum var mælt hitastig í þekktum sprungum með hitaútstreymi, en auk þess voru gerðar ítarlegri mælingar á minni sprungum austast í Austurbunka þar sem mælist um og yfir 80°C hiti. Hæsti hiti í Austurbunka mældist austan við vitahúsið 94,3°C en í Vesturbunka mældist hæsti hiti 94,8°C.

Sýnataka í borholum

Áhugaverðar og margbreytilegar rannsóknir eru gerðar í borholum sem boraðar voru í Surtsey árið 2017. Þær gera vísindamönnum kleift að kanna betur hvað er að gerast neðanjarðar í eynni. Hafa rannsóknirnar verið nefndar „Surtsey subsurface laboratory“.

Vatnssýni eru tekin af mismunandi dýpi til að kanna efnahvörf sem verða milli vatns og bergs við mismunandi hita og þrýsting. Einnig er fylgst með virkni og vexti örvera en áhugavert er að kanna hvers konar örverulíf þrífst þar við mjög ólífvænar aðstæður.

Safnað var vökvasýnum úr borholunum sem sett voru niður 2019 og nýjum komið fyrir. Þá var sett af stað ný tilraun þar sem kanna á útfellingar steinda í borholunum og í þeim tilgangi voru skilin eftir sýnatökuhylki sem sótt verða síðar.

Fótspor í móbergi

Lengi hefur verið vitað um fótspor manna sem varðveist hafa í gjósku neðarlega í Austurbunka, sem eru nú orðin að greinilegu fari í móberginu. Segja má að um einskonar steingerving sé að ræða þó ekki séu sporin gömul en för lífvera er sérstök fræðigrein innan steingervingafræði. Í gegnum tíðina hafa jarðfræðingar, meira í gríni en alvöru, eignað þessi spor jarðvísindamönnum sem voru út í Surtsey á meðan gosinu stóð. Raunin er að ekki er vitað hver eða hverjir gengu í hlíðum Austurbunka í óharðnaðri gjósku á fyrstu árum Surtseyjar og koma þar allmargir til greina.

Í leiðangrinum voru nærliggjandi svæði könnuð enn frekar og kom þá í ljós að fótsporin í móberginu eru mun fleiri en áður var talið og eru þau af mismunandi stærð og lögun. Sporin voru nú í fyrsta sinn kortlögð, mæld á vísindalegan hátt og ljósmynduð. Einnig voru teknar af þeim loftmyndir með flygildi til að útbúa nákvæmt þrívíddarlíkan. Unnið verður frekar úr þessum rannsóknum veturinn 2021–2022.

List

Með í för myndlistakonan Þorgerður Ólafsdóttir sem vinnur að myndlistaverkefni um Surtsey fyrir Umhverfisstofnun. Afraksturinn verður settur upp sem sýning í Eldheimum á komandi ári.

Leiðangurinn var farinn í samvinnu við Surtseyjarfélagið sem hefur allt frá Surtseyjargosinu komið að skipulagningu rannsókna og útvegað aðstöðu til rannsókna í eynni. Í honum tóku þátt þau Birgir Vilhelm Óskarsson og Lovísa Ásbjörnsdóttir leiðangursstjóri frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Raúl Esperante frá Loma Linda University í Kaliforníu, Guðmundur Valsson frá Landmælingum Íslands, Hannah Bable frá Háskólanum í Bergen, Magnús Freyr Sigurkarlsson frá Umhverfisstofnun, Þorgerður Ólafsdóttir myndlistakona og Tobias B. Weisenberger frá Háskóla Íslands, Breiðdalssetri.

Landhelgisgæsla Íslands sá um að flytja leiðangursmenn út í eyju með þyrlu og Björgunarfélag Vestmannaeyja kom þeim, öllum útbúnaði og rusli til baka til Vestmannaeyja.