Surtseyjarleiðangur líffræðinga 2021

Árlegur rannsókna- og vöktunarleiðangur Náttúrufræðistofnunar Íslands til Surtseyjar var farinn dagana 12. – 18. júlí. Líffræðingar dvöldu í eynni frá 12. – 15. júlí og var flutningur þeirra til eyjarinnar í höndum Landhelgisgæslunnar og Björgunarfélagsins í Vestmannaeyjum. Auk vísindamanna frá Náttúrufræðistofnun Íslands, voru í leiðangrinum þátttakendur frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun og Umhverfisstofnun. Leiðangurinn var farinn í samvinnu við Surtseyjarfélagið sem allt frá myndun Surtseyjar hefur komið að skipulagningu rannsókna þar og viðheldur skála og aðstöðu til rannsókna.

Plöntur

Í leiðangrinum fundust alls 66 tegundir æðplantna á lífi en þar á meðal var grástör (Carex flacca) sem ekki hefur fundist áður. Með henni hafa 79 tegundir æðplantna fundist í eynni frá árinu 1965 er fjörukál fannst þar fyrst plantna. Grástörin fannst í jaðri máfavarpsins á suðurhluta eyjarinnar. Hún hafði breitt nokkuð úr sér og var tekin að blómstra ríkulega. Ekki leikur vafi á að hún hefur verið í eynni í nokkur ár, en leynst þar innan um annan gróður. Góðar líkur eru á að hún muni dafna vel í Surtsey. Grástör er þurrlendisstör og er algeng í graslendi undir Eyjafjöllum og í Heimaey. Tegundir æðplantna sem fundust nú í Surtsey eru jafnmargar að tölu og árið 2020 en aldrei hafa fleiri tegundir fundist á lífi en þessi tvö ár.

Almennt hefur gróður dafnað vel í eynni sumarið 2021. Mikil gróska er sem fyrr í máfavarpinu, kafgras í elsta hluta þess, en minnkandi gróska er dregur út til jaðra varpsins. Er kemur út fyrir varpið er gróður enn mjög strjáll en þar sækja þó melategundir eins og holurt, melskriðnablóm og hundasúra stöðugt í sig veðrið þessi árin. Þar höfðu áður komið sér fyrir fjöruarfi og melgresi á vikurbornu landi.

Fuglar

Fuglalíf í eynni reyndist vera með líflegra móti. Líklegt er að 12 tegundir fugla hafi verpt þar í vor en alls hafa 17 tegundir reynt varp í eynni frá árinu 1970 er teista og fýll tóku að verpa þar. Líffræðingar urðu á fyrsta degi varir við sandlóur í eynni og þóttu þær varplegar af atferli að dæma. Það kom á daginn að sandlóa var tekin að verpa í Surtsey en hreiður hennar fannst á strjálgrónum vikrum upp við vestari gíg eyjarinnar. Þar var fugl sem barmaði sér mjög við hreiður með 4 eggjum. Þetta er í fyrsta sinn sem sandlóa finnst með hreiður í Surtsey en þar er ákjósanlegt búsvæði fyrir hana á vikrum. Á þeim hefur gróður aukist til muna á undanförnum árum og um leið framboð skordýra sem sandlóan nýtir til fæðu.

Máfavarp í Surtsey var áþekkt og undanfarin ár, en þar eru nokkur hundruð pör svartbaks, sílamáfs og silfurmáfs sem skipta með sér landi uppi á eynni. Þar hafði fýl hins vegar fjölgað en hann verpir í björgum og í gígum og graslendi inni á eynni. Þá var margt sólskríkja, þúfutittlinga og maríuerla í eynni og meira en áður hefur verið, um 10 varpör af fyrrnefndu tegundum tveimur en um 5 af þeirri síðastnefndu. Eitt hrafnspar hefur að líkindum verpt í eynni þetta vorið, en laupur þess var í vestari gígnum. Þrír hrafnar sáust í leiðangrinum og þar af var að minnsta kosti einn ungi. Þá telst til tíðinda að grágæsarpar var í eynni með 3 stálpaða unga en grágæs hefur að líkindum ekki verpt í eynni frá árinu 2009. Árið 2002 fannst grágæs með unga í fyrsta sinn í Surtsey. Það vakti athygli leiðangursmanna að nokkrir dílaskarfar voru við eyna og tylltu sér öðru hvoru á bjargbrúnir, en þeirra hefur lítið orðið vart undanfarin sumur. Sunnan við Gústafsberg á austurhluta eyjarinnar sátu 4 skarfar einn morguninn en ummerki á hvíldarstað þeirra bentu til að þeir hefðu haft þar viðdvöl um hríð. Á norðurtanga eyjarinnar sást stakur víxlnefur í fjöruarfabreiðum en hann er sjaldséður flækingur hér á landi. Telst koma hans til Surtseyjar til tíðinda.

Skordýr

Það viðraði ekki mjög vel til skordýraveiða er líffræðingar dvöldu í eynni en nokkuð safnaðist þó af þeim í gildrur sem settar voru niður við fasta gróðurmælireiti. Greiningar skordýrasýna sem safnað var munu leiða í ljós hvort eitthvað nýtt hafi safnast. Líkt og undanfarin ár var talsvert af bjöllum á ferðinni á yfirborði jarðvegs, einkum járnsmiðir og langleggir.

Jarðvegsmyndun

Landbúnaðarháskóli Íslands hélt áfram rannsóknum sínum á jarðvegsmyndun og virkni í Surtsey. Að þessu sinni voru tekin sýni af jarðvegi við fasta gróðurmælireiti í eynni. Úr sýnunum verða flæmdir þráðormar, stökkmor og mítlar í rannsóknastofu og síðan greind til tegunda. Þessir lífveruhópar eru mikilvirkastir við niðurbrot lífrænna efna í jarðvegi í Surtsey. Þetta er ýtarlegri rannsókn á þessum dýrum en áður hefur verið gerð í eynni.

Fjörulífverur

Hafrannsóknastofnun tók upp þráðinn við rannsóknir á landnámi þörunga og annarra fjörulífvera við strönd Surtseyjar, en um áratugur er liðinn frá því fjörur voru síðast rannsakaðar í eynni. Að minnsta kosti tvær nýjar tegundir þörunga fundust í eynni en fullnaðar greining á þeim verður gerð í landi. Sjá nánari umfjöllun í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar.

Hreinsun

Landvörður frá Umhverfisstofnun gerði úttekt á rusli sem rekur á fjörur á norðurtanga Surtseyjar, en þangað berst jafnt og þétt upp eitt og annað. Mest eru það belgir og netakúlur úr veiðafærum en einnig kemur drjúgt að plastflöskum sem væntanlega falla frá skipum og berast vítt um hafið. Í lok leiðangurs var ruslið flutt í land með báti og því fargað í Heimaey með aðstoð Björgunarfélagsins.

Í leiðangri líffræðinga voru þau Borgþór Magnússon, leiðangursstjóri, og Matthías S. Alfreðsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Bjarni Diðrik Sigurðsson og Esther Kapinga frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Karl Gunnarsson og Svanhildur Egilsdóttir frá Hafrannsóknastofnun, Joe Roman frá Bandaríkjunum og Magnús Freyr Sigurkarlsson, landvörður frá Umhverfisstofnun.