Skriðuföll í Hörgárdal árið 1390 og afdrif Gásakaupstaðar

Nýlega kom út grein eftir Halldór G. Pétursson jarðfræðing hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem fjallar um mikil skriðuföll sem áttu sér stað á Hörgárdalssvæðinu árið 1390. Greinin birtist í 19. hefti Heimaslóðar, Árbók Hörgársveitar.

Í miklum rigningum á norðan- og vestanverðu landinu haustið 1390 varð hrina mikilla skriðufalla á Hörgárdalssvæðinu. Í þeim eyddust bæir, eignatjón og landspjöll urðu mikil, 28 manns fórust og líklega mikið af búpeningi. Heimildir um hamfarirnar er að finna í gömlum annálum, fornum ritum og sögnum, en ekki síst í jarðlögum, landslagi og fornleifum á svæðinu.

Í greininni er ummerkjum skriðufallanna lýst og fjallað um afleiðingar og hugsanleg áhrif hamfaranna, meðal annars á hinn forna Gásakaupstað við Hörgárósa. Greinin er byggð á upplýsingum sem safnast hafa í vinnu undanfarinna ára og áratuga, ýmist á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands eða Veðurstofunnar, vegna könnunar á farvegsbreytingum Hörgár, umhverfisbreytingum við Hörgárósa og Gásir og á ofanflóðaaðstæðum í Hörgárdal og Öxnadal.

Það er Sögufélag Hörgársveitar sem gefur Heimslóð, árbók Hörgársveitar út. Ritið má nálgast hjá Guðmundi Steindórssyni ritstjóra bókarinnar eða Árna Arnsteinssyni formanni félagsins.

Grein Halldórs:

Halldór G. Pétursson 2022. Skriðuföllin í Hörgárdal árið 1390 og afdrif Gásakaupstaðar: staðreyndir, hugmyndir og tilgátur. Í Guðmundur Steindórsson, ritstj. Heimaslóð, Árbók Hörgársveitar, 19. hefti, bls. 5–39. Sögufélag Hörgársveitar.