Surtseyjarleiðangur líffræðinga 2022

Árlegur líffræðileiðangur til Surtseyjar sýnir að hægt hefur á landnámi nýrra plöntutegunda. Hins vegar hafa tvær nýjar smádýrategundir nú numið land í Surtsey.

Rannsókna- og vöktunarleiðangur sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands til Surtseyjar var farinn dagana 18.–21. júlí. Auk vísindamanna frá stofnuninni voru í leiðangrinum þátttakendur frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Náttúrufræðistofu Norðurlands vestra, landvörður Umhverfisstofnunar og tveir spænskir kvikmyndagerðarmenn. Leiðangurinn var skipulagður í samvinnu við Surtseyjarfélagið. Veður var milt og vindur fremur hægur en nokkuð rigndi þessa daga. Vöktun á landnámi plantna og dýra fór fram á hefðbundinn hátt. Miklar breytingar höfðu orðið á gróðri á tanganum á eynni norðanverðri. Þar hefur aldan, í stórviðrum vetrarins, gengið yfir tangann og borið mikinn sand inn í stórgrýtta fjöruna og inn á gróið land ofan hennar. Áfram brotnar úr eynni sunnanverðri.

Æðplöntur

Alls fundust 63 æðplöntutegundir á lífi í eynni. Engin ný tegund fannst að þessu sinni en nokkuð hefur hægt á landnámi tegunda undanfarinn áratug. Þrjár tegundir frá fyrra ári fundust ekki og eru líklega horfnar; klappadúnurt (Epilobium collinum), gleym-mér-ei (Myosotis arvensis) og hálmgresi (Calamagrostis neglecta). Talsverðar breytingar höfðu orðið í stofnstærð nokkurra tegunda. Stofn hélublöðku (Atriplex sp.) á tanganum hefur hrunið vegna áðurnefndra umhverfisbreytinga og eyðingu búsvæðis hennar þar. Var hún áður mjög útbreidd á tanganum en í ár fundust þar einungis fáeinar plöntur. Stofn hóffífils (Tussilago farfara) hefur stækkað til muna og fannst tegundin nú á tveimur stöðum á eynni. Þá hefur stofnstærð vætudúnurtar (Epilobium ciliatum) aukist frá tveimur plöntum sumarið 2020 í rúmlega 40 plöntur þetta árið.

Fléttur

Úttekt á fléttufungu Surtseyjar er gerð fjórða hvert ár. Frá 2018 er greinileg hnignun margra fléttutegunda á eynni, einkum þeirra sem vaxa á hrauninu. Mögulegt er að vindrof af völdum gjóskufoks hafi neikvæð áhrif á fléttur sem vaxa á hraungrjóti. Þá hafa stofnar algengra tegunda á borð við skeljaskófir og törgur  (Lecanara spp.) látið undan síga í kjölfar aukinnar þekju æðplantna í máfavarpi. Hins vegar hefur jarðvegsmyndun í máfavarpinu jákvæð áhrif á útbreiðslu ýmissa engjaskófa (Peltigera spp.), króka og bikara (Cladonia spp.). Sérstök leit var gerð að fjörusvertu án árangurs og líklegt að sjávarrof sé of hratt til að tegundin nái fótfestu. Þó er rétt að taka fram að stærstur hluti fjöruklappa eyjarinnar er óaðgengilegur. Móbrydda (Protopannanz pezizoides) fannst í Surtungi en tegundin sást 1994 á svipuðum slóðum.

Gróður og jarðvegur

Gerð var úttekt á föstum gróðurreitum sem dreifðir eru um eyjuna, alls 29 reitir. Reitirnir eru mældir annað hvert ár og þeir elstu eru frá 1990. Gróðurreitir á tanganum voru horfnir eftir veðurham vetrarins og nýir reitir settir þar út og mældir. Í fuglavarpi var mikil gróska og reitir þar kafgrösugir. Í jaðri fuglavarps var nokkuð um að bættust við plöntutegundir. Þekjugögn verða skoðuð í framhaldi til að greina breytingar og þróun gróðurs.

Mælingar á vistkerfisvirkni fóru fram á gróðurreitum en aðstæður voru nokkuð krefjandi þar sem mælingar krefjast þurrks. Þó náðist að mæla virkni (öndun og kolefnisupptöku) á þriðjungi reitanna. Skipt var um niðurbrotspoka í öllum reitum sem hafa jarðveg, nema á tanganum, og endurkastsstuðull (NDVI) var mældur í öllum föstum reitum. Þá voru tekin jarðvegssýni á völdum reitum til mælinga á örplasti. Einnig voru tekin sýni á Heimaey til samanburðar. Mælingarnar munu fara fram við UKSW háskólann í Varsjá í Póllandi.

 

Smádýr

Smádýrarannsóknir fóru fram með fallgildrum í gróðurreitum og víðar, með tjaldgildru, háfun í gróðurlendum og einnig var leitað að smádýrum undir steinum, rekavið og öðru lauslegu. Veður var nokkuð óhagstætt fyrir smádýrasöfnun. Lítið var um fiðrildategundir aðrar en víðiglæðu (Pyla fusca) og grasvefara (Eana osseana). Ullarmölur (Monopis laevigella) fannst í Surtungi og túnfeti sást á flögri. Þrjú eintök af folaflugu (Tipula paludosa) fundust í tjaldgildru og er það í fyrsta skipti sem tegundin finnst í Surtsey. Skógarmítill (Ixodes ricinus) fannst óvænt í máfavarpinu við háfun. Um er að ræða karldýr sem hefur væntanlega borist með farfugli sem gyðla í vor. Tegundin hefur ekki fundist í Surtsey síðan 1967. Langleggur (Mitopus morio), sem fannst fyrst 2019, er orðinn mjög algengur í máfavarpinu. Hvort eitthvað fleira spennandi hafi fundist í fallgildrum eða tjaldgildru kemur í ljós við greiningu sýna.

Fuglar

Af fuglalífi eyjarinnar var allt gott að frétta. Samkvæmt talningu við gróðurreiti voru álíka mörg máfshreiður og undanfarin ár. Þó voru engin hreiður við reiti á tanganum þar sem sjávarrof hafði eytt nær öllum gróðri. Hins vegar hafði varp aukist í apalhrauni á austanverðri eynni. Fýl hélt áfram að fjölga við reiti. Fjórir hrafnar voru í eynni og á að giska fimm sólskríkju- og þúfutittlingspör. Af maríuerlu voru um þrjú varppör. Mikið var af ferskum gæsaskít, þannig að væntanlega verpti gæs í eynni en ekki sást til hennar. Ein sandlóa sat við Vestribunka en sýndi ekki varpatferli. Tveir skarfar sátu bjargbrún og hópur af tildrum var á tanganum. Lundar höfðu gert allmargar tilraunir að grafa holur í máfavarpinu. Ekki sást til lunda á hefðbundnum varpstað sunnan á eynni. Teista var á hefðbundnum stöðum og sást bera að síli. Súlukast og háhyrningsvaða sáust úti fyrir suðurhluta eyjarinnar og var mikið sjónarspil.

Hreinsun

Meðal verka landvarðar var að hreinsa fjörur af ýmsu drasli sem rekið hafði upp frá síðasta ári. Átti Surtseyjarfélagið frumkvæði að því og hefur það nú verið gert frá 2016. Að þessu sinni hafði rekið á fjörur eyjunnar öldudufl frá Scripps Institution of Oceanography í Kaliforníu. Sjálfvirkur staðsetningarbúnaður duflsins bilaði í desember 2019. Reynt verður að koma duflinu til skila svo að lesa megi úr þeim gögnum sem duflið hefur safnað.

Það er ekki aðeins mannfólk sem safnar rusli í Surtsey. Máfar eru liðtækir í ruslahreinsun en nokkuð var um að trégafflar og hnífar fyndust í máfavarpinu sem þeir hafa að líkindum hirt sjórekna eða fljótandi á yfirborði sjávar.

Í leiðangrinum voru tveir spænskir kvikmyndagerðarmenn sem mynduðu lífríki og landslag Surtseyjar eins og það er nú eftir tæplega sextíu ára þróun frá myndun hennar. Þeir vinna að kvikmynd sem fjallar um landnám í breiðum skilningi og verður myndefnið frá Surtsey upplegg í það verkefni.