Tunguskollakambur kannaður

Í mars 2022 hlaut Náttúrfræðistofnun Íslands styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til að rannsaka vistfræði og stofnerfðafræði tunguskollakambs, Struthiopteris fallax, sem er burknategund sem lifir einvörðungu á Íslandi. Sumarið var notað til viðamikilla rannsókna þar sem jafnframt voru tekin sýni til erfðarannsókna.

Rannsóknir á íslenskri flóru síðustu ár benda til að ein íslensk burknategund verðskuldi það að kallast einlend tegund. Enginn vafi leikur á að hún er mjög frábrugðin svipuðum burknum í Evrópu og um allan heim. Það var danski grasafræðingurinn Christian Grønlund sem fann burkna fyrst í Íslandsleiðangri sínum árið 1876. Þegar hann heimsótti Deildartunguhver í Borgarfirði fann hann undarlega plöntu sem óx á strýtu við hverinn. Þegar hann snéri til baka til Danmerkur fékk hann Johan Lange, þekktan danskan grasafræðing, til að greina tegundina. Hann komst að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða afbrigði skollakambs, Struthiopteris spicant, sem er sjaldgæfur burkni sem vex í flestum landshlutum á Íslandi nema á Suðurlandi.

Nú, um 140 árum síðar, hefur staða þessarar áhugaverðu plöntu verið endurmetin og mjög ítarlegar flokkunarfræðilegar rannsóknir sýna fram á að plantan getur vissulega flokkast sem tegund, ný íslensk, einlend tegund. Hún ber heitið tunguskollakambur, Struthiopteris fallax, sem vex að öllum líkindum aðeins við Deildartunguhver í Borgarfirði.

Sumarið 2022 voru gerðar gróðurrannsóknir við Deildartunguhver og á vaxtastöðum skollakambs, S. spicant, í öllum landshlutum. Heildargróðurþekja og þekja allra æðplantna var metin. Í hverjum gróðurreit var jarðvegshiti mældur á 10 cm dýpi og jarðvegssýni teknar til efnarannsókna. Lesið var gögn frá mælitækjum sem sett voru upp á vaxtastöðum beggja burknategunda til að kanna hvaða breytileika í hita og rakastigi þeir þola. Önnur mælitæki voru einnig sett upp til að geta fylgst með umhverfisaðstæðum beggja burknategunda í lengri tíma.

Tekin voru blaðsýni úr níu stofnum skollakambs og einum stofni tunguskollakambs, 5–10 sýni úr hverjum stofni. Þess var gætt að taka aðeins lítil sýni en ekki heilar plöntur. Framundan eru erfðafræðilegar rannsóknir á blaðsýnunum, þar sem raðgreiningu verður beitt til að greina erfðabreytileika í öllu erfðamengi plantnanna. Niðurstöður rannsóknanna verða notaðar til að svara spurningum um umhverfisskilyrði tunguskollakambs, erfðafjölbreytileika hans og um erfðasamsetningu Struthiopteris-stofna á Íslandi. Markmiðið er að vernda einlendu tegundina tunguskollakamb fyrir komandi kynslóðir.

Rannsóknirnar eru gerðar undir stjórn Pawel Wasowicz grasafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og eru þær unnar í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Háskólann í Wroclaw, Póllandi.