Gróðurbreytingar í Skaftafelli í kjölfar friðunar og hlýnandi veðurfars

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur gefið út skýrslu sem fjallar um rannsóknir á framvindu gróðurs í Skaftafelli á tímabilinu 1979–2018. Niðurstöður sýna miklar breytingar, úr melagróðri, mólendi og kjarrlendi til gróskumeiri lyng- og blómskóga.  

Markmið rannsóknanna var að efla þekkingu á gróðri í Skaftafelli og að fylgjast með breytingum í kjölfar þess að þar dró úr sauðfjárbeit eftir stofnun þjóðgarðs 1967 og að land var girt 1978. Eins og algengt er um langtímarannsóknir koma nýir áhrifaþættir til sögunnar og nýjar spurningar vakna og í ljósi snarprar hlýnunar loftslags eftir 1985 var ákveðið að skoða einnig hvaða áhrif það hefur á gróðurfarið í Skaftafelli.

Niðurstöður sýna að fremur litlar breytingar urðu á gróðri milli 1979 og 1985–1987 en hins vegar höfðu átt sér miklar breytingar árið 2018. Þá hafði birki aukist mjög að útbreiðslu og þekju, en einnig þekja bláberjalyngs, krækilyngs og alaskalúpínu. Gróðurbreytingar höfðu orðið í átt frá melagróðri, mólendi og kjarrlendi til gróskumeiri lyng- og blómskóga með færri tegundum æðplantna og minni fjölbreytni. Við þetta höfðu margar smávaxnar og beitarþolnar berangurstegundir látið undan síga. Færri en stórvaxnari tegundum sem einkenna friðað land og skógarbotna hafði hins vegar vaxið ásmegin. Dæmi um það voru gulvíðir, hvannir, blágresi, hrútaberjalyng og bugðupuntur. Gróðurbreytingar voru minni eftir því sem ofar dró í landi. 

Frá 1979 til 2018 hafði tegundum æðplantna að jafnaði fækkað neðan 300 m h.y.s. en fjölgað í reitum ofan 450 m. Mest umskipti á gróðri í Skaftafelli urðu þar sem alaskalúpína hafði breiðst yfir hálfgróna mela með ungbirki við Bæjarstaðarskóg. Þar hafði vaxið upp birkiskógur sem um margt var tekinn að líkjast hinum gamla skógi. 

Að mati höfunda skýrslunnar er friðun lands fyrir sauðfjárbeit, eftir þunga nýtingu á síðustu öld, höfuðorsök gróðurbreytinga í Skaftafelli á rannsóknartímabilinu, en að hlýnandi veðurfar hafi vafalítið ýtt undir þær. Þeir telja að á næstu áratugum muni útbreiðsla birkis og skóglendis aukast í Skaftafelli á landi sem fær frið fyrir ágangi vatna. Líklegt sé að alaskalúpína muni einnig margfalda útbreiðslu sína á aurum og í skriðurunnum hlíðum og gjörbreyta gróðurframvindu. 

Skýrsluna er að finna á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands: 

Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon, Kristbjörn Egilsson, Rannveig Thoroddsen, Járngerður Grétarsdóttir, Ingibjörg Eyþórsdóttir og Eyþór Einarsson† 2022. Gróðurbreytingar í Skaftafelli í kjölfar friðunar og hlýnandi veðurfars. Unnið í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands.