Slakt arnarvarp sumarið 2022 og ferðir ungra arna

Arnarvarp 2022 var lélegt samanborið við mörg undanfarin  ár. Tæplega helmingur para sem urpu kom upp ungum. Ungir ernir sem bera leiðarrita sýna að flestir þeirra halda sig á vestanverðu landinu, einkum við Breiðafjörð.

Sumarið 2022 voru að minnsta kosti 58 pör sem urpu en aðeins 27 þeirra komu upp 38 ungum, samanborið við 45 pör árið 2021 sem komu upp 58 ungum. Óhagstæðu tíðarfari um vorið er án efa um að kenna og versnaði varpárangur eftir því sem norðar dró á landinu. Arnarstofninn er hins vegar í hægum en öruggum vexti og eru um 92 arnaróðul í ábúð á vestanverðu landinu, frá Faxaflóa norður í Húnaflóa. 

Á hverju sumri síðan 2019 hafa leiðarritar (gps/gsm-sendar) verið settir á arnarunga við um allt varpsvæði arnarins í þeim tilgangi að varpa ljósi á búsvæðanotkun og ferðir ungra arna. Sumarið 2022 voru settir sendar á 14 unga sem allir urðu fleygir, þrír þeirra drápust þó í haust af óþekktum orsökum. Hinir eru enn undir verndarvæng foreldra og verða fram eftir hausti, sumir jafnvel fram í febrúar á næsta ári, en þá leggja þeir land undir fót. 

Á árunum 2019–2021 voru settir sendar á 25 arnarunga og eru 19 þeirra lifandi með virka leiðarrita og virðast þeir allir við góða heilsu. Dánarorsakir hinna sex voru af mismunandi toga: fuglaflensa, flug á raflínu, blýeitrun (hafði étið gæsarhræ) og drukknun. 

Vorið og sumarið 2022 héldu flestir ungu fuglarnir sig  við Breiðafjörð, nokkrir voru við Faxaflóa, fáeinir voru norður á Ströndum og aðrir fóru í Húnaflóa um Laxárdalsheiði. Einn fugl var á Fjöllum (Möðrudalur – Grímsstaðir – Búrfellsheiði) frá því í lok apríl og fram í byrjun október, lengst af í þekktum heiðagæsavörpum. Ungu fuglarnir ferðast mest um vor (apríl – maí) og á haustin (september – október, sjá mynd) en eru staðbundnari á veturna.

Gera má ráð fyrir að ernirnir beri leiðarritana ævilangt, svo að með tímanum verður hægt að kortleggja nákvæmalega ferðir þeirra, hvernig nýta tímann og velja leiðir. Þetta mun nýtast við mat á þýðingu einstakra svæða og hvar beri að forðast að reisa t.d. vindmyllur en þær eru örnum skeinuhættari en flestum öðrum fuglum.

Stefnt er að því að setja senditæki á að minnsta kosti 10 arnarunga sumarið 2023.

Vöktun arnarins er unnin í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands, Háskóla Íslands og heimamenn.