Ungur örn greindist fyrstur með skæða fuglaflensu hér á landi

Skæð fuglaflensa (HPAI H5N1) greindist fyrst hér á landi í ungum erni sem drapst haustið 2021. Annar ungur örn drapst úr flensunni nú í haust.

Örninn sem drapst úr fuglaflensu haustið 2021 bar senditæki (gps-gsm) og þess vegna tókst að hirða hræið og rannsaka það. Hann var merktur sem ungi í hreiðri við norðanverðan Breiðafjörð í júlí 2021, þá 6–7 vikna gamall. Þar sem símasamband er mjög lélegt á svæðinu var hann í stopulu sambandi. Gert var ráð fyrir því að þegar hann færi að hreyfa sig meira þegar líða tók á haustið myndi hann öðru hverju koma í samband. Það gerðist hins vegar ekki og var farið að huga að honum 10. október, án árangurs. 

Hinn 21. október kom fuglinn í samband um 7 km utan við varphólmann og jafnframt hlóðust þá niður staðsetningar allt frá því í júlí. Samkvæmt þeim hafði fuglinn haldið síg í hólmanum og næsta nágrenni (1–2 km radíus) allan tímann. Í ljós kom (samkvæmt hitamæli í tækinu) að örninn hafði drepist 8. október 2021 eða um hálfum mánuði áður. Stórstraumur var 6. október og hefur fuglinn legið rétt fyrir neðan stórstraumsflóðmörk en flotið upp á næsta stórstraumi (21. október) og borist út fjörðinn og þannig komist í samband. Náð var í fuglinn 25. október, 17 dögum eftir að hann drapst og var hann heill að sjá en lítillega farinn að rotna og músétinn á nokkrum stöðum. Hræið var fryst og rannsakað í Þýskalandi í febrúar 2022 og lágu niðurstöður flensugreiningar fyrir í apríl.

Á vefmiðlinum News Medical er fjallað um nýútkomna grein sem birtist í vísindatímaritinu Emerging Infectious Diseases en í henni er sagt frá erninum og öðrum fuglum sem greinst höfðu með flensuna hér á landi í vor og hvaða þýðingu ferðir fugla milli heimsálfa (Evrópu og N-Ameríku) og viðdvöl þeirra hér á landi hefur á dreifingu smita og þróun veirunnar.

Ekki er vitað hversu útbreidd fuglaflensan er hér á landi en hún hefur fundist í mörgum tegundum víða um land, þar á meðal fuglum eins og fálka, skúm og svartbak, sem veiða sér aðra fugla til matar eða leggjast á hræ líkt og örninn. Niðurstöður skimunar á alvarlegu afbrigði fuglaflensu í villtum fuglum má skoða í lifandi mælaborði á vef Matvælastofnunar.

Sumarið 2022 voru sett senditæki á 14 arnarunga og drápust þrír þeirra á nú í haust (september – október). Tekið var sýni úr einum þeirra og reyndist hann vera með skæða fuglaflensu.

Greinin er opin öllum á netinu:

Günther, A., O. Krone, V. Svansson, A. Pohlmann, J. King, G.T. Hallgrimsson, K.H. Skarphéðinsson, H. Sigurðardóttir, S.R. Jónsson, M. Beer, B. Brugger og T. Harder 2022. Iceland as stepping stone for spread of highly pathogenic avian influenza virus between Europe and North America. Emerging Infectious Diseases 28(12). DOI: 10.3201/eid2812.221086