Ný tegund höfrunga við Ísland

Um miðjan júlí síðastliðinn var tilkynnt um tvo höfrunga sem rekið hafði á land í botni Hrútafjarðar. Í ljós kom að höfrungarnir voru fyrstu sinnar tegundar sem fundist hafa við Ísland. Þeir hafa verið krufðir og verða beinagrindurnar varðveittar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Höfrungarnir sem um ræðir eru af tegundinni Grampus griseus, sem hefur aldrei áður verið staðfest hér við land. Um er að ræða eina stærstu tegundina í höfrungaætt (Delphinidae) en dýrin geta orðið 3–4 m löng og 500 kg að þyngd. Útbreiðslan er umfangsmikil og nær til allra heimshafa á tempruðum hafsvæðum og í hitabeltinu. Aðalútbreiðslusvæðið er Norður-Atlantshaf, Miðjarðarhaf og við strendur Íberíuskaga og Frakklands en tegundin finnst þó allt norður til Færeyja. Höfrungarnir kjósa fremur mikið dýpi og finnast oft í landgrunnsköntum á 400–1000 m dýpi þar sem þeir lifa aðallega á kolkrabba og smokkfiski. Kjörhitastig tegundarinnar er 15–20°C þó hún finnist stundum í kaldari sjó, en mjög sjaldan þar sem hiti er undir 10°C. Hafsvæðið í kringum Ísland er þannig á mörkum þess að vera of kalt fyrir tegundina, sérstaklega norðanlands þar sem hvalirnir fundust.

Eitt aðaleinkenni tegundarinnar er rispuð húð, það er að segja litur höfrunganna líkist gráum marmara með hvítum rispum. Enska heitið fyrir tegundina er Rissos´s dolphin, á norsku kallast hann arrdelfin, á færeysku Risso´s springari og á dönsku Risso´s delfin. Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafrannsóknastofnun leggja því til að á íslensku hljóti hann nafnið rispuhöfrungur.

Höfrungarnir tveir voru nýlega krufðir af hópi vísindamanna frá Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands, Rannsóknarsetri Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði og Náttúrufræðistofnun Íslands. Annað dýrið hafði komið lifandi í fjöru en ekki reyndist hægt að bjarga því vegna þess hve veikburða það var. Hitt dýrið rak dautt á land. Um var að ræða ungan tarf og kýr sem hvorugt var fullvaxið. Þau voru bæði mjög horuð, með mjög þunnt spiklag og líklegt er að þau hafi örmagnast vegna sultar. Við krufninguna var sýnum safnað fyrir ýmis verkefni, svo sem evrópskt verkefni um vistfræði miðsjávarlaga (SUMMER) sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í, rannsókn á vistfræði tannhvala við Ísland, rannsókn á sníkjudýrum í sjávarspendýrum og rannsóknir á veirum í sjávarspendýrum. Hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er nú unnið að hreinsun beinagrindanna en það ferli tekur um átta mánuði. Beinunum verður síðan komið fyrir á skipulegan hátt og þau varðveitt í vísindasafni stofnunarinnar.